Textílmennt og sjálfbærni

Námsvefurinn Gera sjálfur

 
 
Meistaraverkefnið er námsvefurinn gerasjalfur.is sem samanstendur af fræðsluefni og kennsluhugmyndum. 
 
Vefurinn er hugsaður sem námsefni í textílmennt í grunnskólum og er ætlað að bæta úr skorti á námsefni þar sem áhersla er lögð á sjálfbærni, sem er einn af grunnþáttum gildandi aðalnámskrár og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
 
Fræðsluefnið á námsvefnum er nokkurs konar inngangur og/eða kveikja að verkefnunum. Þar er fjallað um neyslu, úrgang, skynditísku, fatasóun, sjálfbæra tísku og umhverfisáhrif textíliðnaðarins. Efninu er ætlað að stuðla að bættri siðferðiskennd og hvetja til gagnrýninnar hugsunar á sviði neyslu- og umhverfishegðunar sem leitt gæti til sjálfbærari lífshátta.
 
Fjallað er um nýja hreyfingu barna og ungmenna í aðgerðum í loftslagsmálum og getu þeirra til að hafa áhrif í ýmsum málum sem snúa að sjálfbærni. Bent er á leiðir og góð ráð til að snúa þróuninni við með breyttum lífsháttum og gildum.
 
Verkefnin fjalla um nýtni, endurvinnslu og endurgerð textílúrgangs og annars efnis sem ekki er lengur í notkun og yrði hent ella. Þau miðast að því að opna augu nemanda fyrir því að það sem við hendum og köllum úrgang getur verið dýrmætt hráefni sem auðvelt er að nýta á skapandi hátt. Nokkur verkefni hafa náttúru og umhverfi að leiðarljósi og miðast að því að auka tengsl nemenda við raunveruleikann, náttúruna og umhverfið, sem er mikilvægt sjálfbæru gildismati.
 
Sagt er og sýnt frá nokkrum verkefnum sem eru samfélagsmiðuð og hafa að markmiði að gefa af sér og vekja samhygð. Verkefnin miðast öll að því að vera valdeflandi og hvetja nemendur til aðgerða.
 
Í ritgerðinni eru námsvefnum gerð fræðileg skil með stuðningi eigindlegrar rannsóknar. Í henni er fjallað um sjálfbærni og mikilvægi þess að menntakerfi okkar þróist frá formlegri menntun til umbreytandi menntunar sem býr nemendur undir þá framtíð sem við blasir.
 
Áhersluatriðin eru gildi, gagnrýnin og skapandi hugsun, og reynslunám og verklegt nám sem getur nýst sjálfbærnimenntun. Auk þess fjallað um gildi handverks fyrir sjálfbærni í námi og lífi.
Ásta Vilhjálmsdóttir
astavilhjalmsd [at] gmail.com
gerasjalfur.is
Leiðbeinandi: Dr. Ásthildur Björg Jónsdóttir
30 ECTS
2020