Magn og tími geta verið eins konar efniviður. Tíminn sem lagður hefur verið í vinnuna, magn orðanna sem eyðast í massanum. Magnið og vitneskjan um tímann afbakar og breytir verkinu. Í rannsóknum mínum sækist ég stöðugt eftir leiðum til að bjaga og ummynda þau efni eða þær hugmyndir sem ég er að vinna með. Ég nota texta sem teikningu, þar sem flæði og magn textans eyðir upprunalega tungumálinu sem hann samanstendur af og skilur ekkert eftir sig nema formrænu og verður með þeim hætti myndlýsing á sjálfum sér. Ég nota teikningar mínar sem efnivið í skúlptúra. Offlæði teikninga sem aldrei fara upp á verk eða inn í ramma varðveitast í bögglum sem samanstanda ekki einungis af teikningunum heldur líka af vitundinni um þá geysimiklu vinnu og tíma sem lagður hefur verið í þær. Með þessum hætti verður magnið efniviður, magn orða, pappírs, litarefnis sem flæðir yfir og blandast inn í pappírinn. Vitneskjan um tímann og vitneskjan um verknaðinn og athöfnina verður að efnivið sem vegur jafn þungt og hinn áþreifanlegi efniviður. Fyrirfram mótaðar hugmyndir og hneigðir, hafðar yfir allan vafa, vekja hjá mér forvitni, hvernig hlutir eiga að vera og hvernig við eigum að skynja þá. Minnsta skekkja eða bjögun getur kollvarpað þessum hugmyndum. Myndlistin mín nær hápunkti sínum inni á vinnustofunni. Eftir það verður hún lítilvægleg. Ég stíg á teikningarnar, ríf þær niður eða hendi þeim, þær verða hráefni í skúlptúr eða innsetningu. Öll skrifuðu orðin, öll þráhyggjan, ósjálfráðu skrifuðu þankagangarnir, leikurinn með blekið og vatnið sem sogast upp í pappírinn eða lekur um hann, blæbrigðin sem breytast, hálfpartinn af einbeittum ásetningi, hálfpartinn óvart, allt þetta verður lítilvægt í fullkláraða verkinu. 

Merkingin strokast út í magninu, fjöldanum. Hún verður brot af stærra samhengi eða mögulega ekkert annað en vottur um afkastamikinn myndlistarmann. Vinnuáráttan réttlætir að einhverju leiti myndlistarmanninn. Klapp á bakið fyrir að vera „duglegur“ listamaður, afkastamikill. En að sama skapi líkjast verkin sem hrúgast upp á vinnustofunni líkamsvessum, afgöngum og úrgangi sem verður að finna leið út, hvað sem það kostar. En hvað gerist svo? Þegar það er komið út? Hvað gerist þá? Að upplifa tíma með þessu móti er ekki ólíkt því að hlusta á þögn í 4 mínútur og 33 sekúndur, hún er þarna, samt ekki.