Ásgerður Arnardóttir
www.asgerdurarnar.com

Tilraunir, flæði og virk hlustun á innsæið gegna lykilhlutverki í vinnuferli mínu. Ég legg aldrei af stað með fyrirframgefna hugmynd um niðurstöðu heldur legg ég áherslu á að hafa hugann opinn fyrir öllum þeim breytingum og óvæntu uppákomum sem gætu gerst í ferlinu. Ég dreg lærdóm af hinu óvænta og nýti mér í tilurð verka minna.

Kveikjur nýrra verka eru oftast brot úr umhverfinu sem fangað hafa athygli mína. Brotin eru nær alltaf óhlutbundin en verða að einhverju leyti hlutgerð í gegnum vinnuferlið. Hið hlutbundna og hið óhlutbundna eru mér því hugleikin hugtök og ég dansa meðvitað á línunni á milli þeirra. Ég nýti mér mismunandi útfærslur í ólíkum miðlum ljósmyndunar, málunar, teikningar, tölvuvinnslu og lágmyndagerðar til að varpa fram ólíkum sjónarhornum á sama hlutinn. Ég vinn með endurtekningar til þess að komast nær kjarnanum, greina til fulls og leiða að niðurstöðu. Oftar en ekki uppgötva ég ný sjónarhorn, sem ég vissi ekki að væru til. Ég finn fyrir ákveðnum óendanleika í gegnum þessar rannsakandi endurtekningar, því það virðist vera hægt að halda endalaust áfram að túlka og skynja hluti á alls kyns vegu, sjónarhornin eru óteljandi. Það er þessi óendanleiki sem heldur mér gangandi.

Verkið á sýningunni endurspeglar sköpunaraðferðir mínar þar sem leikur með sjónarhorn og endurtekningar skipa stóran sess. Verkið samanstendur af málverki á striga sem ég vann eftir ljósmyndum af eldri verkum, striga sem ég lagði svo saman í fellingar, ljósmyndaði og fullvann loks í tölvuforriti til prentunar. Með því að spegla verkið fram og aftur í mismunandi sjónarhornum vildi ég fanga tilfinningu fyrir óþekktri vídd, fá áhorfandann til þess að skynja og upplifa málverkið með öðruvísi hætti, fara í ferðalag inn í mismunandi heima vídda og sjónarhorna.