Sláðu inn leitarorð
Ásgeir Ásgeirsson
Þegar menningarheimar mætast
Íslensk þjóðlög og Austrænt tónmál
Ég hef á undanförnum tíu árum ferðast mikið til Austur-Evrópu og Miðausturlanda til að nema tónlist og til að læra á hin ýmsu strengjahljóðfæri. Ég hef meðal annars sótt tíma í Íran, Indlandi, Tyrklandi, Marokkó, Búlgaríu og Grikklandi.
Á þessum tíu árum hef ég litað íslenskt tónlistarlíf með leik á þessi hljóðfæri með m.a. hljómsveitinni Skuggamyndr frá Býsans, á mínum sólóplötum og í ýmsum öðrum verkefnum.
Fyrir fimm árum ákvað ég að blanda saman tónmáli frá Austur-Evrópu og Miðausturlöndum við íslenska þjóðlagið og gera plötur með fólki sem ég hafði kynnst á ferðalögum mínum. Árið 2017 kom út platan Two Sides of Europe en þar eru íslensku þjóðlögin sett inní tyrkneskan hljóðheim, og leikin af nokkrum af virtustu tónlistarmönnum Tyrkja. Þar eins og á hinum plötunum leik ég á þau strengjahlóðfæri sem ég hef sérmenntað mig í en ásamt mér sér Sigríður Thorlacius um allan söng á plötunum.
Næsta plata kom út 2018 og ber nafnið Travelling Through Cultures þar sem ég samdi nýja kafla við íslensku þjóðlögin og setti inn í búlgarskan hljóðheim. Á þeirri plötu er unnið með tónlistarhóp frá Suður- Búlgaríu sem nefnist Thrakia Ensemble sem og gestum frá m.a. Indlandi, Grikklandi, Austurríki sem gefur plötunni enn fjölbreyttari hljóðheim. Þriðja og síðasta platan nefnist The Persian Path og kemur út snemma 2020 og er unnin í samvinnu við tónlistarhóp frá Teheran.

Lokaverkefni mitt er nótna- og kennslubók þar sem nóturnar og útsetningarnar af plötunum eru í fyrri hlutanum. Í seinni hlutanum er farið yfir nokkur af mikilvægustu atriðum austrænnar tónlistar eins og skreyting nótna, tónstigar og taktar.
Ég legg fram mikið af æfingum og hugmyndum um hvernig hægt er að ná tökum á þessari tónlist sem ég hef viðað að mér á mínum ferðalögum síðustu tíu ár. Einnig er kennsluhlutinn tengdur við plöturnar þrjár með tilvísunum.
Menningarheimar mætast, Íslensk þjóðlög er vonandi nýtt og ferskt innlegg í námsframboð í tónlistarskólum þar sem höfundi finnst að þjóðararfurinn hafi ekki fengið þann sess sem hann á skilið.

Ásgeir Ásgeirsson
2019
asgeirja [at] simnet.is
Leiðbeinandi: Berglind María Tómasdóttir