Ásbjörn Erlingsson
 

List hefur lengi verið notuð til að greina og deila á samfélög og eru myndasagan og skopmyndin í sérlega góðri stöðu til þess. Skopskynið sem þessum miðlum fylgir eru að mínu mati mikilvæg verkfæri til að benda á fáránleika ríkjandi gilda og ástand samfélagsins. Sú uppgötvun að skopmyndin ætti alveg jafn mikið heima í listheiminum og aðrar „alvarlegri“ myndir hefur verið mér mikilvæg og ég finn að síðan ég sætti mig við skopmyndina hafa möguleikar listsköpunar minnar orðið mun fleiri fyrir vikið.

Þetta er ekki tölvuleikur sem þú sigrar. Markmiðið er að þrauka og reyna að gera þig ekki að fífli. Þú veist ekki nógu mikið um málin til að vera ósammála öllum en samt ertu nokkuð viss um að þú sért það. Með því að tvinna saman skopmynd, texta og tölvuleik skapa ég heim þar sem leikmaðurinn er fastur í aðstæðum þar sem hann neyðist til að eiga, að mestu leyti einhliða, samskipti við persónur sem hann skilur ekki alveg.

Skopmyndin einkennist af því að þar eru andlit gerð fyndin og skrýtin, táknrænum og ýktum hreyfingum bætt við, og með þessari samsetningu er reynt að gefa viðfangsefnum líf. Í þessu verki eru myndirnar flestar uppspuni, sjaldnast er verið að teikna ákveðna einstaklinga heldur eru teikningarnar túlkun á hinum almenna ljótleika.

Texta og myndum er blandað saman og þannig opnast fjölmargar dyr í möguleikum frásagnar  Skopmyndin með sínum ýktu tilfinningum og miklu tjáningu verður að tilfinningaríkri sögu og leik.