„Við erum öll búin til úr stjörnuryki”

Starfendarannsókn unnin á smiðjum á Listasafni Íslands

Verkefni mitt var starfendarannsókn á smiðjum sem ég stýrði í Safnahúsinu við Hverfisgötu snemma árs 2023 og uppsetning námsefnis tengdu smiðjunum. Á safninu tók ég á móti þremur hópum nemenda í sjötta og sjöunda bekk og vann svo námsefnið út frá samræðum mínum með þeim. Hugsunin var að finna leið til þess að koma fræðslu safnsins til nemenda sem ekki eiga heimangengt á Listasafn Íslands.

Smiðjurnar voru tvíþættar, fyrst leiðsagði ég nemendum um sýninguna og svo sköpuðu nemendur skuggabrúður og tóku upp stop-motion skuggaleikhús. Í rannsókn minni spegla ég reynslu mína af kennslu í hefðbundnu skólaumhverfi við starf safnkennarans. Ég rýni í eigin kennsluaðferðir og skoða út frá fræðum inngildingar og heildrænnar nálgunar á menntun.

Niðurstaða starfendarannsóknarinnar er sú að samræðan er lykilþáttur í minni kennslu. Því sótti ég titil verkefnisins í samræður við nemendur í einni leiðsögninni. Ég legg mikla áherslu á gleði og að nemendum líði vel í minni umsjá. Í smiðjunum á safninu komu þessar áherslur fram í því að ég setti jákvæða reynslu nemendanna af safninu í forgang, fremur en þekkingaröflun eða framleiðni nemenda í skapandi smiðjum.

Ariana Katrín Katrínardóttir