Í verkefninu Frelsi til menntunar: Sjálfstætt vídeó nám rannsaka ég sjálfstætt nám í gegnum listkennslumyndbönd og móta aðferðir til framleiðslu á slíku námsefni.  

Sjálfstætt nám í gegnum listkennslumyndbönd á ýmislegt sameiginlegt við fjarnám og vendikennslu (e. Flipped Learning), en ákveðin lykilatriði skilja á milli þessara kennsluaðferða. Ég velti sérstaklega fram þeim göllum sem felast í gjánni milli nemenda og kennara í sjálfstæðu námi. Samskipti, sem teljast til mikilvægustu þátta listnáms, geta aldrei átt sér stað milli einstaklinga sitt hvoru megin við skjáinn í listkennslumyndböndum.  

Listkennslumyndbönd hafa samt verið hluti af menningarvefnaði heimsins allt frá upphafi sjónvarpsútsendinga á fyrri hluta 20. aldar, þökk sé kennurum eins og Jon Gnagy, William Alexander og Bob Ross. Hvað sem hverjum finnst þá eru listkennslumyndbönd enn þá framleidd, og þau væru það ekki ef enginn væri að horfa á þau. Sjálfur hef ég til að mynda menntað mig í fjölbreyttum miðlum í gegnum listkennslumyndbönd, þar á meðal á sviðum vídeólistar.  

Myndlistin og áhugi minn til framleiðslu á eigin listkennslumyndböndum eru forsendur þessa verkefnis. Sú nálgun var þar af leiðandi tekin að rannsaka þetta kennsluform með aðferðum listrannsókna. Meginafurðir þessa verkefnis eru listkennslumyndbandið Málum saman með Antoni Loga (https://youtu.be/vgMT4RBYJlc) og aðferðabanki sem ég byggði í kjölfar reynslu af framleiðslu myndbandsins. Hér stendur annars vegar eftir listkennslumyndband um þrautseigju, tilraunagleði, sköpunarferli, landslagsmálverk og litablöndun; og hins vegar þrískipt nálgun á framleiðslu listkennslumyndbanda með tólf skilgreindum aðferðum. 

Image preview

Image preview

Image preview

Image preview

Anton Logi Ólafsson
antonlogiolafs [at] gmail.com
Leiðbeinendur: Gunndís Ýr Finnbogadóttir, Halla Birgisdóttir, Ingimar Ólafsson Waage
20 ECTS
2023