Æ ofan í æ stend ég mig að því að ímynda mér það sem virðist ómögulegt, ósýnilegt og óþekkt, til þess að láta reyna á merkingu gegn merkingarleysu, til að finna leið til að elska það sem bæði heillar mig og hræðir, svo sem þverstæður, mótsagnir og óvissu. Ég rýni í persónulegt samband mitt við hið óþekkta – og uppgötva mitt eigið eðli, eigin hæfileika og gildi, í stað þess að berjast við tálma. 

 

Fólk lítur gjarnan upp þegar það hugsar, eða jafnvel pírir augun eins og til að koma auga á eitthvað í fjarska. Það að hugsa er oft tengt við það að sjá. Við tölum um að koma auga á eitthvað þegar við áttum okkur á einhverju. Þegar ég einblíndi á ekkert sagðist ég hafa komið auga á eitthvað. „Loksins kem ég auga á eitthvað,“ sagði ég. 

 

Að því leiti varð það að ramba á „eitthvað“, á meðan ég beindi sjónum að öðru, að endurteknu mynstri í vinnu minni. Ég reyndi að taka því fagnandi í stað þess að forðast það.  

Niðurstaðan er sú að ég tengist betur umheiminum í stað þess að dvelja mikið til í blekkingarheimi hugsana. Mér hefur oft þótt það íþyngjandi en þegar ég einblíndi á ekkert tókst ég auðveldlega á flug, eins og ég hefði skyndilega losnað við ímyndaða kjölfestu. Ekkert hefur breyst og orðið að einhverju áþreifanlegu til að vinna með. 

 

Það rann upp fyrir mér hversu gríðarlega tungumála- og táknkerfið stjórnar skynjun minni. Ég brýt það niður, misskil það vísvitandi, fagna mismælum og öðrum málfarslegum slysum. Ég leyfi ólíkum tungumálum og merkingum að mætast og kem þannig auga á tólið og gildruna sem tungumál og hugsun getur verið. Það getur opnað bæði huga og skynjun að sundurgreina tungumálið. Við það birtast takmarkanir tungumálaheims okkar og það gríðarlega, ólýsanlega, óþekkta og tóma rými milli línanna sem við notum í samskiptum.