Sláðu inn leitarorð
Anna Jónsdóttir
Senn verandi úti og inni
miðlun íslenskra þjóðlaga á sérstökum stöðum
Viðfangsefni þessarar meistararitgerðar er að kanna, hvort miðlun íslenskra þjóðlaga á sérstökum stöðum í bland við sögufrásagnir og þátttökulist, geti eflt menningarvitund nemenda og verið stuðningur við kennslu í félagsgreinum og jafnvel listgreinum. Hvort viðburðurinn, sem ekki er hefðbundin kennslustund, ýti undir áhuga og auki vitneskju um íslenskan menningararf og íslenskar aðstæður fyrr á tímum. Hvernig áhrif það hafi á nemendur, að gefa þeim kost á að hlýða á lifandi flutning tónlistar, og hugsanlega tengsl fagurferðis, skynjunar, umhverfis og listviðburða á kennslu og nám.
Rannsóknin er eigindleg listrannsókn þar sem notast var við rannsóknarsnið tilviksrannsóknar og starfendarannsóknar. Meginviðfangsefnið voru tónleikar, þar sem flutt voru íslensk þjóðlög án meðleiks í bland við sögufrásagnir og þátttökulist á fjórum tónleikum á höfuðborgarsvæðinu, fyrir nemendur í sjötta bekk og kennara þeirra í september 2019. Tvennir tónleikar voru í garði við hús, er áður hýsti Álfinn í Kópavogi og tvennir í laut í Gálgahrauni í Garðabæ.

Þau gögn sem aflað var voru; spurningalistar sem nemendur og kennarar svöruðu um sína upplifun af viðburðinum, hljóð- og myndupptökur frá tónleikunum, þátttökuathuganir og dagbókarskrif rannsakanda, þar sem sértök áhersla var á aðdraganda og framkvæmd tónleikanna.
Niðurstöður rannsóknarinnar gáfu til kynna að heilt yfir hefði upplifun nemenda verið jákvæð og vel tekist til. Einnig að sögufrásagnir og þátttaka þeirra í viðburðinum hefði gefið tónleikunum enn meira vægi.


Anna Jónsdóttir er sjálfstætt starfandi óperusöngkona og raddlistakona.
2006 hélt hún debut-tónleika í Hafnarborg ásamt Jónasi Sen, og síðan hefur hún verið virk í listalífinu hér á landi og erlendis. Anna gaf út hljómdiskinn Móðurást, með íslenskum sönglögum og hljómdiskinn VAR, sem inniheldur íslensk þjóðlög, sungin án meðleiks og hljóðrituð í lýsistanki á Djúpavík og í Akranesvita. Í kjölfar útgáfu hans, ferðaðist Anna um Ísland í tónleikaröðinni Uppi og niðri og þar í miðju þar sem hún söng þjóðlögin á sérstökum stöðum eins og hellum, gígium, vitum og þess háttar. Hún fór í aðra sambærilega ferð sumarið 2019 þar sem einnig var gerð samnefnd heimildarmynd, með samspili söngs, þjóðlaga, náttúru og umhverfis.
Undanfarin ár hefur tónleikahald og þátttaka í verkefnum erlendis verið vaxandi hluti af starfi Önnu.
Hún hefur tekið þátt í alþjóðlegu tónlistarsamstarfi á vegum Music Art Omi International í New York fylki, og á tónlistarhátíðinni SonicExchange í Kassel í Þýskalandi. Í kjölfarið komst svo á laggirnar samstarfsverkefnið ”Máninn líður”, með tveimur þýskum tónlistarkonum, um flutning íslenskar tónlistar á tilraunakenndan hátt. Tónlistina hafa þær flutt á fjölmörgum tónleikum, síðast á Íslandi sumarið 2019 á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði og í Sigurjónssafni.
Anna stóð fyrir tónleikaröðinni Konsert með kaffinu í Hannesarholti. Hún er helmingur Dúós Mirabilis með Sophie Schoonjans, hörpuleikara og hafa þær spilað á fjölmörgum tónleikum, einar sér og í samstarfi við aðra listamenn undanfarinn áratug.
Verkefnaval Önnu er fjölbreytt og spannar allt frá endurreisnartónlist og þjóðlögum til frumflutnings á nýrri tónlist eða hvers sem fangar hjarta hennar.
Anna hefur hefur undanfarin ár leitað nýrra leiða til tónlistariðkunar og má þar nefna spuna, tónlistarflutningur á nýstárlegum stöðum og ekki síst að finna leiðir til að vera sjálfbær söngkona og takast á við nýjar áskoranir.
Í frístundum finnst Önnu gaman að taka ljósmyndir, lesa ljóð, hjóla og vera úti í náttúrunni.
Fagurt er í Fjörðum
https://soundcloud.com/anna-jonsdottir/var-fagurt-er-i-fjorum
Anna Jónsdóttir
annamega [at] simnet.is
https://annajonsdottir.wixsite.com/website
https://soundcloud.com/anna-jonsdottir
Leiðbeinandi: Kristín Valsdóttir
Tónlistardeild
30 ECTS
2020
annamega [at] simnet.is
https://annajonsdottir.wixsite.com/website
https://soundcloud.com/anna-jonsdottir
Leiðbeinandi: Kristín Valsdóttir
Tónlistardeild
30 ECTS
2020