Sláðu inn leitarorð
Anna Hugadóttir
ARFURINN
Sveigjanlegar útsetningar á íslenskum þjóðlögum
fyrir strengjanemendur á grunnstigi
ARFURINN er safn sveigjanlegra útsetninga á íslenskum þjóðlögum fyrir strengjanemendur á grunnstigi.
Með verkefninu sameinar höfundur þrjú hugðarefni sín, íslenskan þjóðlagaarf, skapandi starf í tónlistarnámi og strengjakennslu.
Verkefnið á sér langan aðdraganda en höfundur byggir það á eigin kennslureynslu og þeim áhrifum sem hann hefur orðið fyrir sem kennari innanlands og utan síðastliðin 15 ár.
Helstu áhrifavaldar við gerð útsetninganna eru aðferð Kodálys og skyldar kennsluaðferðir í hljóðfærakennslu, íslenskar og norrænar þjóðlagaútsetningar og svo viðtöl við kollega höfundar í stétt strengjakennara sem hafa miðlað af reynslu sinni af miklu örlæti.
Allar útsetningarnar eru byggðar upp á sama hátt; laglína er studd þremur fylgiröddum á mismunandi erfiðleikastigi sem henta allt frá byrjendum til nemenda sem lokið hafa grunnstigi samkvæmt viðmiðum aðalnámskrár.
Allar raddir eru skrifaðar út fyrir fiðlu, víólu, selló og kontrabassa. Hver nemandi getur fengið rödd við sitt hæfi og því má nota útsetningarnar með fjölbreyttum nemendahópi.
Útsetningarnar ásamt ítarefni, kennsluleiðbeiningum og hljóðskrám eru aðgengilegar á heimasíðu höfundar, www.annahuga.is og er aðgangur notendum að kostnaðarlausu.
Verkefninu er ætlað að stuðla að varðveislu og miðlun menningararfsins, bæta framboð á námsefni fyrir strengjanemendur á grunnstigi og kynna nemendur og kennara fyrir þeim miklu möguleikum sem felast í íslenskri þjóðlagatónlist.

Anna Hugadóttir
annahugadottir [at] gmail.com
Leiðbeinendur: Elín Anna Ísaksdóttir og Hildigunnur Rúnarsdóttir
20 ECTS
Tónlistardeild
Tónlistardeild
2021