Anna Andrea Winther
www.annawinther.com

Matur er dagleg þörf og nautn. Á hverjum degi ákveður þú hvað þú borðar. Það er þér mikilvægt að matnum sé treystandi, hann sé kunnuglegur og virki á skynfæri þín á þægilegan hátt. 

Þú situr við stofuborðið og tekur úr plastumbúðum tvo ljósbrúna ferninga sem eru klesstir saman með hvítum og mýkri ferningi. Lyktin minnir á eldhúsið hjá ömmu, skólaferðalög og kaffipásur. Þú veist hvernig það mun bragðast þegar tennurnar bíta í gegnum hörðu skelina og koma að mjúka kjarnanum. Hvernig það blotnar og blandast slepjulega saman við munnvatnið og lyktin berst upp í nefið.

En í þetta skipti tekur forvitnin yfirhöndina og brussulega tekur þú ferningana í sundur og skefur hvíta kjarnann af með nöglunum. Það kemur þér svolítið á óvart að hann er hvort tveggja þurr og olíukenndur, þegar þú rúllar honum upp í kúlu. Skelina mylur þú með lófunum í blandara með tilheyrandi látum. Þú hvolfir úr blandaranum og einhvers konar duft streymir út og þekur borðið fyrir framan þig. Þér finnst skemmtilegt hvernig það þjappast eins og barnaleir.

Þú fyllist efa og ákveður að þetta sé óþægilegt. Þú saknar kunnuglega formsins. Þig langar ekkert að borða olíukenndu kúluna eða leirkennda duftið. Þú þjappar duftinu í ferninga, fletur út kúlunna og setur saman eins nákvæmlega og þér er unnt, til að líkjast fyrra formi. Það er samt ekki eins.

Í verkinu velti ég fyrir mér samskiptum fólks og matvöru í gegnum fyrirbærið Kremkex frá Frón. Kremkexið er verksmiðjuframleidd hugmynd um nostalgíu, heimilið og lof um vellíðan. Ég bý til aðferð til að kryfja fyrirbærið og geri tilraun til að kynnast efninu sjálfu. Hvað stendur eftir þegar hugmyndin er tætt í sundur og sett saman aftur?