Núvitundarnálgun og flæði í myndmenntakennslu

 
Það er ákveðin staðreynd að þjóðfélagið, sem við búum í í dag, samfélagslegar kröfur og lífsgæðakapphlaupið skapa samfélag sem einnkennist af miklum hraða, áreiti og streitu sem getur haft slæm áhrif á okkur öll og jafnvel leitt af sér kvíða og þunglyndi ef ekki er tekist á við streituna og reynt að sporna við henni.
 
Fyrir börn og unglinga á skólaaldri getur þetta leitt til slæmrar námsframvindu og vanlíðunar innan skólakerfisins. Það er umhugsunarvert og þýðingarmikið að kennarar séu meðvitaðir um þetta og leggi sitt af mörkum til að skapa andrúmsloft sem eykur vellíðan barna og unglinga.
 
Núvitund (e. mindfulness) er hugarástand eða hugleiðsluform, þar sem athyglin er í núinu, og flæði (e. flow) er meðvitundarástand sem verður til á meðan einstaklingur framkvæmir. Síðastliðin ár hefur töluverð vakning orðið um upplifun einstaklinga af núvitundariðkun erlendis en slíkar rannsóknir gætu gefið frekari vísbendingar um það hvernig nýta megi núvitund og flæði og flétta þessa þætti inn í hefbundna myndmenntakennslu.
 
Listsköpun er einnig talin hafa róandi áhrif á fólk og oft lýsa einstaklingar því að hvernig það skapist ákveðið hugleiðsluástand þegar það unnið er á áþreifanlegan hátt, við að komast í snertingu við myndlistarefniviðinn og skynja og upplifa í gegnum hendurnar. Hvers vegna myndast þessi ró? Hvað er það sem gerist í líkamanum?
 
Tilgangurinn með þessari ritgerð er í fyrsta lagi að rannsaka hvort listsköpun feli í sér ávinning sem stuðli að andlegri vellíðan meðal barna og unglinga og kanna hvort myndmenntakennarar geti lagt eitthvað af mörkum til að stuðla að betri andlegri heilsu og aukinni sjálfstyrkingu með sérstakri áherslu á núvitund og flæði í listsköpun. Einnig að varpa ljósi á þessa þætti vegna mikilvægi þeirra innan skólakerfisins með það fyrir augum að vinna gegn streitu og kvíða.
 
 
picture_1.png
 
Anna Álfheiður Brynjólfsdóttir 
annabrynjolfs [at] gmail.com
Leiðbeinandi: Íris Ingvarsdóttir
30 ECTS
2020