Allt sem er grænt, grænt
finnst mér vera fallegt
Bréfaskriftir um fegurð

 
Meistaraverkefnið er eigindleg listrannsókn þar sem spurt er: Hvað gerist þegar tvær manneskjur byrja að skrifast á um fegurð og önnur er blind en hin ekki? Rannsóknin leitast við að greina hvernig blindir og þeir sem sjá skynja fegurð út frá mismunandi nálgunum eigin skynfæra. Þátttakendur eru fimm listamenn og konur á aldrinum 17 til 73 ára. Einn af þeim gegnir lykilhlutverki. Það er kona sem er fædd blind og hefur skrifast á við alla aðra sem taka þátt í rannsókninni. Vegna þess hve mikil áhersla er á hið sjónræna í daglegu lífi fólks er áhugavert að skoða það nánar eins og gert er í þessari rannsókn. 
 
Rannsóknin er spegluð í verkum myndlistarmanna, skálda og eigindlegri rannsókn, þar sem gögnin voru sendibréf. Við greiningu á gögnunum var notuð grunduð kenning og textar þátttakanda voru þemagreindir, en með því móti var hægt að sjá hvaða hugmyndir um fegurð komu endurtekið fram í rannsókninni. Bréfaskriftir eru sjaldgæf gagnasöfnun í eigindlegum rannsóknum. Þessi leið hentaði þó rannsókninni vel, þar sem þátttakendur þekktust ekki og skrifuðu undir nafnleynd.
 
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa hugmynd um það hvernig fimm listrænir einstaklingar tjá sig í rituðu máli um fegurð og það er ekki svo mikill munur á þótt einn þeirra sé blindur. Flestum fannst flókið að svara spurningunni: Hvað er fegurð í þínum huga? Allir höfðu margs konar svör við því hvað væri fegurð í þeirra huga. Því fylgdi frelsi að skrifast á undir nafnleynd. Bréfritarar deildu trúnaðarmálum og leyndarmálum en þeir vissu að þeir myndu aldrei hitta eða vita við hvern þeir voru að skrifast á við. Í lok ritgerðarinnar er rætt um hversu fáir grunnskólar á Íslandi kenna heimspeki og ræddar eru leiðir til að nálgast viðfangsefnið í skólum sem þessi ritgerð fjallar um.
 
Ég er með BA próf í mannfræði frá Háskóla Íslands. Ég lauk tveimur árum í myndlistardeild Listaháskóla Íslands en í kjölfar þess að ég flutti frá borginni þá hætti ég í námi. Ég flutti aftur til borgarinnar og hóf alþjóðlegt meistaranám í hönnun við Listaháskóla Íslands. Í því námi skoðaði ég meðal annars gildi bóka, hvers vegna við eigum bækur og gerði eigindlega rannsókn þar sem fegurðin var skoðuð. Ég skipti um deild og fór yfir í listkennsludeild, tók með mér verkefni úr fyrra námi og er lokaverkefnið hluti af því. Námið í listkennslu hefur bætt miklu við – mengið hefur stækkað. Ég stefni á að starfa við listkennslu og miðlun en möguleikarnir eru fjölbreyttir að loknu MA námi í listkennslu við Listaháskóla Íslands.
 
Andrea Magdalena Jónsdóttir
andreaogasa [at] gmail.com
Leiðbeinandi: Halla Margrét Jóhannesdóttir
2019