Í skapandi tónlistarmiðlun er lögð áhersla á haldgóða, almenna tónlistarþekkingu með það að markmiði að gera nemandann sem hæfastan að takast á við ýmiskonar tónlistariðkun og miðlun. Auk þess er lögð áhersla á að veita nemandanum alhliða þjálfun á aðalhljóðfæri sitt.

Nám í skapandi tónlistarmiðlun leiðir til BA gráðu og telst ákjósanlegur undirbúningur meistaranáms í tónlistar- eða tónmenntakennslu. Námið telst einnig tilvalinn undirbúningur fyrir samevrópskt meistaranám í sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi NAIP (Joint Master in New Audiences and Innovative Practise) sem Listaháskólinn býður í samvinnu við fjóra aðra tónlistarháskóla í Evrópu.

Námið er þriggja ára nám til 180 eininga. Nemendur ljúka að jafnaði
30 einingum á önn. Nemendur í hljóðfæraleik ljúka námi með BA-gráðu
þar sem lokaverkefnið felur í sér lokaritgerð og opinberan flutning á
lokaverkefni. Námið er í stórum dráttum þrískipt þar sem hluti námsins samanstendur
af sérhæfingu nemandans í skapandi tónlistarmiðlun, annar hluti er
sameiginlegur kjarni fræðigreina og þriðji hlutinn er val úr
fræðigreinum, tæknigreinum eða fögum annarra deilda. 

Nám í skapandi tónlistarmiðlun byggist á þjálfun í hljóðfæraleik og/eða söng, hvort sem er með hryntónlist eða sígilda og samtímatónlist sem viðfangsefni. Þjálfunin er skipulögð þannig að það nýtist vel þeim sem hafa fjölþætta hæfileika, áhuga og reynslu til að nýta sér hana til miðlunar og sköpunar á hvers konar hátt. Einnig eru dæmi um nemendur á brautinni sem hafa þjálfað sig í tónsmíðum, hljómsveitar- eða kórstjórn. Þá er samleikur, samsöngur, tónsköpun í hóp og skapandi tónlistarsmiðjur sem byggja á samvinnu við ýmsar stofnanir stór þáttur í náminu auk haldgóðs fræðakjarna.

Lögð er áhersla á haldgóða, almenna tónlistarþekkingu með það að markmiði að gera nemandann sem hæfastan að takast á við ýmiss konar tónlistariðkun og miðlun, og allt það sem henni fylgir, í síbreytilegu samfélagi sem gerir æ fjölbreytilegri kröfur til listamanna um að virkja ólíka hópa til skapandi hugsunar. Starfsvettvangur þeirra sem útskrifast af þessari braut getur orðið nánast hvar sem er í samfélagsbyggingunni, allt frá menntakerfi til heilbrigðiskerfis og allt þar á milli, að ógleymdum hinum skapandi geira sjálfum, þar sem samtvinnun ólíkra listgreina og tenging þeirra við aðra geira atvinnulífsins er sífellt mikilvægari. Og er þá ótalin útrás íslenskrar tónlistar og tónlistarmanna, sem er afsprengi aukinnar og bættrar tónlistarmenntunar undanfarinna áratuga sem kallar á aukið framboð og þróun menntunarinnar.

Dæmi um viðfangsefni nemendahópsins eru árlegar smiðjur í Ísaksskóla í desember þar sem einn árgangur í senn semur, æfir og flytur nýtt frumsamið jólalag með nemendum LHÍ. Þá hafa nemendur samið söngleiki, gert útvarpsþætti og heimildamyndir og haldið tónlistarsmiðjur með fjölbreytilegum hópum.

Skólaárinu er skipt í tvö 15 vikna misseri, sem hvort um sig skiptist
í smærri tímabil. Einka- og hóptímar hljóðfæra ganga yfir allt
skólaárið. Haustmisseri skiptist í 6 lotur, vikur 1 – 5, vika 6, vikur 7
– 11, vika 12, vika 13 og vikur 14 – 15. Vormisseri skiptist að jafnaði
í 3 fimm vikna lotur. Samspil í mismunandi stórum hópum er ríkur þáttur
í starfi deildarinnar. Auk þess að taka þátt í skipulegum samspilshópum
deildarinnar, eru nemendur hvattir til að vinna sjálfstætt í smærri og
stærri hópum, jafnvel með öðrum listamönnum.

Fagstjóri: Link \u002D Gunnar Benediktssonsigurdurh [at] lhi.is"/>