Æsa Saga Otrsdóttir Árdal
www.aesasagaardal.com

 

Brúðugerðarmaður sagði mér að það mikilvægasta við verkin hans væri að finna leiðir til þess að blása lífi í dauða hluti. Ég áttaði mig á að það væri líka kjarninn í mínu listræna ferli þar sem ég leita eftir ummerkjum um líf, hreyfingum og umbreytingum, í verkum mínum.

Ákveðið efni vekur eitthvað innra með mér. Það lifnar við þegar ég endurspegla sjálfa mig í því. Efnið er nylon-sokkabuxur með litapalletu sem hönnuð er fyrir mannslíkamann og líkir eftir litum húðarinnar. Með því að fylla efnið með mjúkri ull og bómul, beygja, teygja og brjóta það saman, koma í ljós hrukkur og fellingar sem gefa í skyn eiginleika mannslíkamans. Ég tel áhugavert að notast við táknmyndir tengdar fegurðarstöðlum kvenna, snúa upp á þær og afmynda þannig að þær séu á mörkunum að vera gróteskar, afhjúpa fáránleikann. Ásamt sokkabuxunum nota ég oft hluti sem eru framlenging líkamans eins og gleraugu, naglalakk eða hárlengingar. Hlutirnir eru teknir úr sínu upprunalega samhengi og öðlast við það nýjar víddir ókunnugleika. Upplifun tengd hugtakinu „hið óhugnanlega” (e. the uncanny) er mikilvæg í nálgun minni og listrænu ferli. Þetta er líkamleg upplifun tengd déjá vu og hefur verið skoðuð í rannsóknum tengdum sterkum viðbrögðum fólks gangvart mannlegum fyrirbærum á borð við vélmenni og vaxstyttur. Dauður hlutur sem virðist lifna við í nálægð okkar getur vakið „óhug”. Ég held að með nærgætinni íhugun um slíkar sjónrænar framsetningar gæti listhluturinn hjálpað okkur að tengjast duldum minningum og huldum tilfinningum.