NÁM OG KENNSLA

Nemendamiðað nám
Áhersla er lögð á lýðræðislega aðkomu nemenda að þróun og mótun náms. Stefnt er að því að auka sjálfstæði nemenda í vali á aðferðum og efnistökum, m.a. með auknum tengslum við fagvettvang. Komið er til móts við ólíkar þarfir nemenda, s.s. með þróun og innleiðingu raunfærnimats.

Náms- og starfsráðgjöf
Stuðningur námsráðgjafa við nemendur verður aukinn með frekari ráðgjöf, fræðslu og þróun úrræða. Starfsráðgjöf fyrir nemendur sem eru að fóta sig á fagvettvangi verður efld.

Þverfaglegt nám
Samstarf akademískra starfsmanna og nemenda verður styrkt þvert á deildir Listaháskólans. Tengsl kennslu, listsköpunar og rannsókna á milli ólíkra fagsviða verða efld. Lögð verður áhersla á aukið samstarf við önnur fræðasvið.

Þróun kennsluaðferða í listum
Listaháskólinn verður áfram leiðandi í þróun kennsluaðferða í listum og akademískum starfsmönnum veittur frekari kennslufræðilegur stuðningur.

Þróun námsframboðs
Hafin verður kennsla í kvikmyndagerð. Umhverfi meistaranáms verður styrkt þvert á Listaháskólann með hugmyndafræðilega samlegð í huga. Undirbúningur verður hafinn að doktorsnámi á fræðasviði lista.

Nám og tengsl við umheiminn
Nám og kennsla miðast að því að styrkja tengsl staðbundins samhengis og alþjóðlegs umhverfis lista og menningar. Hæfni nemenda til að takast á við verkefni og áskoranir í alþjóðlegu og fjölmenningarlegu umhverfi verður efld. Lögð verður áhersla á að fjölga tækifærum til þátttöku í alþjóðlegum verkefnum.

RANNSÓKNIR

Tryggt verði nauðsynlegt fjármagn
Áhersla verður lögð á að aukið fé fáist til rannsókna til að styrkja innviði og auka þekkingarsköpun á fræðasviði lista. Aukinn stuðningur verður veittur við gerð umsókna í opinbera samkeppnissjóði. 

Efling rannsókna
Stoðþjónusta við akademíska starfsmenn verður efld og innri samkeppnissjóðir skólans styrktir. Innleitt verður formlegt matskerfi rannsókna við ákvörðun rannsóknarhlutfalla og rannsóknarleyfa. Innra skipulag og umgjörð rannsókna verður styrkt með tilliti til samlegðar þvert á greinar. Lögð verður aukin áhersla á þátttöku í alþjóðlegum rannsóknum.

Miðlun rannsóknarafraksturs
Tryggður verður farvegur fyrir birtingu á viðurkenndum vettvangi og samstarf um miðlun og varðveislu listrannsókna verður aukið. Komið verður á fót miðlægu rannsóknarsetri.

Samþætting rannsókna og kennslu
Kennsla og námssamfélag mótist í auknum mæli af rannsóknum og sérþekkingu akademískra starfsmanna. Verkstæði, tækniver og vinnustofur verða efldar sem vettvangur rannsókna og nemendur fá aukna rannsóknarþjálfun.

Efling bókasafns- og upplýsingaþjónustu
Tryggð verður viðeigandi varðveisla rannsóknarverkefna auk þess sem mótuð verður stefna um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum. Aðgengi að rafrænum heimildum verður aukið. Komið verður á fót ritveri og undirbúningur hafinn að stofnun efnissafns.

SAMFÉLAG

Samstarf við innlenda og erlenda aðila
Tengsl við samstarfsaðila verða styrkt auk þess sem efnt verður til nýs samstarfs. Þannig verður tekist á við nýjar áskoranir og stuðlað að gagnkvæmri miðlun og sköpun þekkingar.

Þróun listnáms
Áhersla verður lögð á gildi listkennslu og listnáms í samfélaginu, m.a. í gegnum rannsóknir og þróunarverkefni á fagvettvangi. Listaháskólinn er leiðandi í umræðu um listnám og styrkir aðkomu allra skólastiga að samvinnunni.

Aðgengi að starfsemi Listaháskólans
Lögð er áhersla á bætt aðgengi að Listaháskólanum og að það verði óháð þáttum sem greinir fólk að. Veitt verður nánari innsýn í starfsemi Listaháskólans með opnum vinnustofum og stuttum námskeiðum sem höfða til ólíkra hópa samfélagsins.

Miðlun á starfi skólans
Verkum nemenda, ásamt rannsóknum og sérfræðiþekkingu, verður miðlað í auknum mæli. Unnið verður að því að auka fjölbreytileika miðlunar.

Opni Listaháskólinn
Opni Listaháskólinn þróist áfram sem símenntunarleið í samráði við starfandi listamenn og kennara. Námskeiðum fyrir skilgreinda markhópa verður fjölgað.

STJÓRNSÝSLA

Undir einu þaki
Styrking og þróun innviða miðar að samþættingu skólastarfs og er liður í sameiningu Listaháskólans í eitt húsnæði.

Fjárhagslegar stoðir styrktar
Stefnt er að því að Listaháskólinn verði fullfjármagnaður og fjármögnun verði með sambærilegum hætti og í norrænum samanburðarskólum. Mótaður verður rammi um samstarf við bakhjarla og unnið að aukinni sókn í samkeppnissjóði.

Starfsumhverfi og starfsþróun
Lögð er áhersla á hvetjandi og heilsueflandi starfsumhverfi, góðan starfsanda og umhverfisvænar og sjálfbærar lausnir. Stuðningur í starfi verður aukinn og fjölbreyttir möguleikar til starfsþróunar mótaðir, m.a. með starf í fjölbreyttu og alþjóðlegu umhverfi í huga.

Jafnrétti að leiðarljósi
Stuðlað verður að fjölbreyttum nemenda- og starfsmannahópi. Húsnæði verður aðgengilegt öllum og styður til jafns við þarfir allra listgreina. Listaháskólinn verði jafnlaunavottaður vinnustaður.

Stjórnunarhættir styrktir
Stuðningur við stjórnendur verður aukinn á sviði reksturs og mannauðs. Starfsáætlanir verða hluti af vinnulagi hjá stjórn, ráðum, nefndum og sviðum.

Gæði í skólastarfi
Mótuð verður gæðastefna og gæðakerfi með hliðsjón af alþjóðlegum viðmiðum og innleitt með lýðræðislegri aðkomu starfsfólks og nemenda.