Kvika, 1. tbl.
8. október 2018

 

AÐ HLUSTA SIG SAMAN
 

Höfundar: Sveinbjörg Þórhallsdóttir og Una Þorleifsdóttir
Myndir: Steve Lorenz

Í gegnum samtal gera listakonurnar Una Þorleifsdóttir leikstjóri og Sveinbjörg Þórhallsdóttir danshöfundur tilraun til að greina samstarf sitt, vinnuferli- og aðferðir við gerð sýningarinnar Tímaþjófurinn (2017) eftir Steinunni Sigurðardóttur í uppfærslu Þjóðleikhússins. Í ferlinu notuðu listakonurnar innsæi sitt til að hlusta sig saman, finna taktinn og skapa jákvætt andrúmsloft til að virkja sköpunarkraft þeirra listamanna sem þær voru í samstarfi við.

Hvað drífur okkur áfram sem listamenn? / Hvaðan komum við?

: Það sem drífur mig einna helst áfram í allri minni sköpun og hugsun er forvitni, löngun til að skilja, til að kafa dýpra, taka í sundur og endurraða. Ég hef alltaf haft mestan áhuga á að rannsaka tilveru og tilvist mannsins í samfélagslegu, menningarlegu og persónulegu samhengi. Spurningar um hver við erum, hvernig við erum og hvernig samfélag við höfum skapað okkur eru meðal þeirra sem drífa alla mína sköpun áfram. Ásamt löngun til að skilja manneskjuna í öllum sínum blæbrigðum og breiskleika, skilja mennskuna og er það eflaust mjög stór áhrifavaldur í því hvernig ég nálgast vinnu með leikurum, verkefnaval og leikstjórn. Ég sé sýningar mínar oftast sem einhverskonar hugleiðingu um ákveðið málefni og það er mér mikilvægara að spyrja spurninga en svara þeim. Að gefa áhorfendum rými til túlkunar, rými til skilgreiningar og skilnings.

Í raun er það þó eflaust miðillinn sjálfur sem heillar mig mest, augnablikið sem áhorfendur og fytjendur deila saman. Möguleikar miðilsins til tjáningar og samskipta, hvernig hann býr til merkingu og leikur sér á mörkum þess skáldaða og raunverulega. Í því samhengi finnst mér mikilvægt sem listamaður að finna hverju verki eða viðfangsefni sitt form, að reyna að finna flæði verksins og það form sem hentar því samtali sem ég vil leggja upp í.

SÞ: Síðastliðin tíu ár hef ég í minni listsköpun og rannsóknum lagt ríka áherslu á að vinna í samstarfi við framsækna listamenn úr mismunandi greinum við sköpun á nýju sviðslistaverki. Ég hef lagt mikla áherslu á ferlið sjálft og rannsóknarvinnuna sem liggur þar að baki. Slík aðferð er lýðræðisleg en getur um leið verið áhættusöm sem mér finnst vera áhugaverð leið fyrir mig til að halda áfram að þróast áfram sem listamaður. Mér finnst sköpunarkrafturinn margfaldast þegar breiður hópur listamanna kemur saman og deilir og miðlar sínum skoðunum og aðferðum til allra í hópnum. Útkoman eftir slíkt ferðalag getur að sjálfsögðu verið misjöfn eins og gengur og gerist en engu að síður spennandi og óútreiknanleg. Rannsóknarverkefni mitt í meistaranámi mínu í kóreografíu fjallaði einmitt um hvort sköpunarkrafturinn margfaldist eður ei þegar ólíkir listamenn koma saman að sköpun sviðslistaverks, en titill þess er „Can Creativity Multiply within a Collective or Devised Theatre?”

Samkvæmt reynslu minni og fyrri rannsóknum er traust á milli allra þeirra sem koma að samstarfinu einn af allra mikilvægustu þáttunum sem þarf að vera til staðar til að samstarf geti gengið upp. Traust er lykilatriði til þess að listamaður finni fyrir öryggi og frelsi í sinni listrænu leit í sköpuninni. Þáttur stjórnenda er að vera vakandi fyrir því að traust og lýðræði ríki þannig að andrúmsloftið sé gott í rýminu. Á þann hátt er hægt að virkja sköpunarkraft listamannsins og leyfa flæði hugmynda að eiga sér stað.

: Hvað er gott samstarf fyrir þér Una?

: Fyrir mér er samstarf grundvöllur allrar skapandi vinnu innan sviðslista. Í sviðslistum koma saman margir ólíkir aðilar, með ólík sérsvið, með það að markmiði að skapa saman heildstæðan heim sem miðlað er til áhorfenda. Auðvitað er það svo að innan hefðbundinna starfsaðferða, og líka þeirra óhefðbundnu, þá er það yfirleitt einhver einn sem tekur lokaákvörðun, hvers listaverk sviðsetningin er. Ég lít hinsvegar þannig á að hlutverk mitt sem leikstjóri sé að finna með mér gott teymi, skapa grundvöll fyrir hreinskiptar og opnar samræður um verkefnið, útfærslu þess aðferðir og nálgun. Ég legg áherslu á að eiga í opnu og rannsakandi sambandi við leikara og aðra er að verkefninu koma. Leiða viðkomandi hóp í átt að sameiginlegri niðurstöðu sem bæði ég og aðrir eru ánægðir með. Ég tel að samstarf sé gjöf sem ögrar og ýtir, og sem getur dregið fram það besta í mér sem listamanni. Þetta er þó vandmeðfarið hlutverk, að vera leikstjóri, þar sem ég held á taumunum, legg upp með ákveðnar hugmyndir og vinn svo markvisst að því að fá aðra til liðs við hugmyndir mínar. Í því samhengi er hlustun og innsæi eflaust mikilvægustu tólin sem ég beiti.

Mínar aðferðir snúast um að skapa umhverfi sköpunar, hafa skýran ramma utan um þær aðferðir sem ég vil beita og gefa svo rými til rannsókna og tilrauna innan þess. Fyrir mér felst gott samstarf í samvinnu þar sem jafnræði ríkir, þar sem allir eru óhræddir við að orða hugmyndir sínar og vera ósammála, þar sem fólk vinnur bæði greinandi og á innsæinu.

 : Una, hvernig myndir þú lýsa samstarfi okkar í Tímaþjófinum?

: Ég kýs að lýsa samstarfi okkar í tveimur fösum:

Fyrri fasinn væri lýsing á praktík, á samtölum um skipulagningu æfinga, um hvaðan við ætluðum að leita fanga, lýsing á myndböndunum sem við deildum með hver annarri, samtölum um áferðir og tilfinningar, um endurtekningar, um hljóðheim, umræður um þemu bókarinnar, um ástina og höfnun, um birtingarmyndir þráhyggju, lýsing á lestri greina um efni tengd verkinu, og á umræðum um hvernig við ætluðum að byggja aðferðafræði okkar, á umræðum um nálgun.

Síðari fasinn væri lýsing á einhverskonar sameiginlegu andrými, sameiginlegri sköpun, samtali án orða. Hvernig við í rýminu önduðum saman með viðfangsefninu, hvernig andadráttur sýningarinnar varð til í rýminu á milli okkar og leikaranna, hvernig við hlustuðum okkur saman, virtumst skilja það sem við vildum fanga á sama hátt, innsæi okkar á einhvern hátt í takt. Eins og tvíhöfða vera í leit að áferð og tilfinningum.

Þessir tveir hlutar fléttast auðvitað saman, án fyrri hlutans hefði síðari hlutinn ekki verið jafn gjöfulur fyrir okkur, en einhvernveginn færðumst við úr einum fasa í annan, oftast samstíga.

Í öllu samstarfinu var mikilvægt að við höfðum átt miklar og langar samræður um þemu bókarinnar, deilt bæði hugmyndum og persónulegum sögum. Höfðum skapað okkur skýra sýn á fagurfræðina áður en æfingatíminn hófst og náðum að nálgast verkið sem tilraun til að draga fram þemu bókarinnar í sviðsmyndinni, tónlistinni og dansinum – ekki bara í gegnum orð á blaði. Ég held að þessi grunn greiningarvinna okkar og skilgreining á fagurfræðilegri nálgun hafi átt stóran þátt í því að við náðum að vera svona samstíga í sköpunarferlinu. Náðum að láta orð og hreyfingar tala saman og skapa andstæður, mótsagnir og frasa sem sögðu meira en nokkuð sem hægt er að orða.

 : Sveinbjörg, ég varpa sömu spurningu yfir til þín.

: Já, ég er sammála þér Una. Við vorum mjög vel undirbúnar og samstíga í allri rannsóknarvinnunni áður en sjálf sköpunin hófst úti á gólfi með leikurunum og öðrum í teyminu. Ég held líka að ein af ástæðunum fyrir því að skilningur okkar á þeim heimi sem við vildum skapa hafi verið fólginn meðal annars í mjög skýru samtali sem við áttum upphaflega þegar þú komst að máli við mig og bauðst mér að taka þetta verkefni að mér. Í því samtali vitnaðirðu í verk Pinu Bausch, Bluebeard (1977), út frá sjónarhorni kynjahlutverka, orku í senum og notkun á endurtekningum í hreyfingu og fleira sem var eitthvað sem ég tengdi strax við út frá viðfangsefni bókarinnar sem er ástin, höfnunin og þráhyggjan. Hugmyndarfræði Bausch og sum verka hennar eins og til dæmis Café Muller (1978), sem er eitt af mínum uppáhalds verkum, eru mjög heillandi og góður útgangspunktur fyrir okkur þar sem mörg verka hennar taka á samskiptum kynjanna, ástinni, sorginni og innihalda húmor. Fjöldi annarra verka dans - og sviðslistahópsins DV8 og fleiri samtímadanshöfunda voru líka skoðuð til að fanga ákveðna fagurfræði sem við vorum að leita eftir. Eftir að ég las bókina sá ég strax möguleikana á því að líkamna þetta verk sem er í eðli sínu mjög ljóðrænt og myndrænt og ég skildi fullkomlega útfrá sameiginlegri þekkingu okkar á listinni og hlustun minni á því hvað þú varst að leita að út frá fyrrnefndu samtali okkar.

Samstarf okkar var mjög áreynslulaust en mjög virkt. Við vorum vinnusamar og áhugasamar um verkið. Það ríkti gagnkvæm virðing og traust og fyrir vikið var samtalið á milli okkar einlægt og hreinskiptið. Á einhvern óútskýranlegan hátt byggðum við hvor aðra upp eins og þú lýsir sjálf svo fallega að hlustunin, skilningurinn og innsæi okkar hafi verið í takt eins og í góðum tangó.

: Sveinbjörg Hvernig myndiru lýsa vinnuaðferðum þínum? Hvernig aðferðum beitirðu til að líkamna sögu, tilfinningu?

: Oft segir hreyfing meira en mörg orð. Í samstarfinu fannst mér þú Una hugrökk við að taka ákvarðanir þar sem hreyfingin fékk að njóta sín án textans og áferðin varð abstrakt sem mér fannst heppnast mjög vel. Samspil textans, hreyfingarinnar og tónlistarinnar þarf að samtvinnast í svona verki og sameinast í eitt - þar liggur galdurinn. Þetta er fínleg vinna þar sem ásetningurinn, skýrleikinn og sköpunin þarf að tvinnast saman.

Ég held að þær aðferðir sem við beittum við gerð uppsetningarinnar hafi verið gagnlegar í ferlinu. Eftir greiningu verksins var gott að komast út á gólf og gera æfingar sem tengdust efnivið verksins. Setja saman hreyfingar, prófa, tileinka sér hreyfingu og halda áfram að leita. Leyfa leikurunum að finna sig í hreyfingunum og tileinka sér þær. Ég vildi nota faðmlög og stökk sem tákn fyrir ástríðu og spennu. Hlaup og snarpar hreyfingar sem voru spennuþrungnar og um leið tákn fyrir tímann. Fall í gólf í endurtekningu á sömu hreyfingum til að endurspegla örvæntinguna og þráhyggjuna. Brotakenndar hreyfingar sem endurspegluðu andlegt áfall og hrörnun.

Við gerðum æfingar sem styrkja hlustun leikarans, snertispuna og fleiri æfingar sem grunn til að byggja á áður en við hleyptum leikurunum í spunaferli með opnunum. Spunaferlið og opnanirnar (þar sem leikarinn kemur með tilboð) settu tóninn í vinnuna þar sem myndaðist tækifæri til að prófa texta, lög, hreyfingar til að finna þann heim sem við vildum skapa og byggja upp karaktera.

 

: Una, hvernig aðferðum beitir þú í leiktúlkun?

: Mér finnst pínu erfitt að skilgreina einhverja eina aðferð sem ég beiti í leiktúlkun og leikstjórn. Í grunninn hef ég áhuga á einhverskonar mínimalisma í leiktúlkun, ég hef áhuga á litlum rýmum og nánd. En jafnframt fer það mikið eftir eðli verksins hvernig ég ákveð að nálgast það, sum verk krefjast þess að unnið sé í stórum tilfinningum meðan önnur kalla á meiri nákvæmnis vinnu, en ákvörðunin um hvaða leið sé best byrjar yfirleitt að myndast í fyrstu viðbrögðum mínum við viðkomandi verki. Hún veltist svo um í undirmeðvitundinni í dágóðan tíma á meðan ég vinn að undirbúningi. Uppbygging vinnunnar er yfirleitt mjög svipuð – undirbúningur minn sem samanstendur af lestri verksins, greiningu á því, tilraunum til að opna það upp með spurningum, greiningu á fyrstu viðbrögðum mínum við efninu (þá með það að markmiði að fanga fagurfræði, hugmyndir um nálgun og einhverskonar ímyndir) og svo samtölum við aðra listræna stjórnendur er koma að verkinu. Hugmyndir þróast um um sviðsmynd og sviðsetningu, um hljóðheim og á þær spurningar sem liggja til grundvallar vinnunni. Oft leita ég líka fanga hjá sérfræðingum um málefni verksins til að öðlast frekari skilning á þeim. Þegar sjálft æfingatímabilið hefst tekur við greining á verkinu með leikurum og samstarfsmönnum; samtal um heim þess, tilfinningalíf persóna, tilraunir og leit út á gólfi. Mér finnst mikilvægt að vera með einhverja tilfinningu í maganum í upphafi, einhverja mynd í huganum af því sem ég er að leita að. Rannsóknarvinnan og æfingatímabilið fer svo í það að ná betur utan um þær spurningar sem ég vil leggja til grundvallar og leiða leikarana í gegnum það að ná utan um hlutverk sitt og sýninguna.

Ég hef það að leiðarljósi í minni vinnu að reyna að skilja persónurnar, hvað þeim gengur til – öðlast einhvern skilning á því af hverju fólk gerir það sem það gerir, af hverju það tekur ákveðnar ákvarðanir og hagar sér á ákveðinn hátt. Það sem mér fannst jafnframt mikilvægt í Tímaþjófinum, eins og þú talar líka um, var að líkamna þessar tilfinningar og ljóðrænu bókarinnar. Finna form sem endurspeglar á einhvern hátt form bókarinnar.

Í Tímaþjófinum notuðum við mikið opnanir og spuna, meira en ég hef gert áður, til að ná utan um heim verksins og styrkja hið líkamlega tungumál sýningarinnar og fagurfræði hennar. Þessi vinna skilaði sér líka mjög vel í persónusköpun leikaranna og í gegnum hana þróuðum við líka áfram hljóðheim verksins og sviðsetninguna alla. Þessi leið hentaði verkinu og umfjöllunarefni þessi mjög vel og fannst mér við ná frekar á dýptina með því að fara þessa leið. Í gegnum þessa vinnu fann ég enn frekar hversu mikilvægt það er að skapa andrúmsloft sem er opið og heiðarlegt, þar sem allt er í boði og engin ritskoðun á sér stað. Ég mun án efa halda áfram að þróa þessa aðferð með mér og nota hana frekar í framtíðinni.

 

: Sveinbjörg, að hvaða leiti finnst þér vinna í þessu formi leikhússins vera öðruvísi en þegar þú vinnur dansverk, beitirðu ólíkum aðferðum eða nálgunum?

: Hvert ferli er í sjálfu sér einstakt og skoða þarf eðli verkefnisins í hvert sinn útfrá þeim aðferðum og nálgunum sem beitt er hverju sinni. Ég hef komið mér upp ákveðnu kerfi og banka af tækjum og tólum í ákveðnum aðferðum sem ég get beitt í mismunandi ferli. Minn útgangspunktur og áhugi er að beita lýðræðislegum aðferðum þar sem valdapíramídinn er flattur út og samstarf og samtal er ríkjandi. Mér finnst ferlið sjálft svo áhugavert, eins og að ganga í gegnum ákveðinn skóla í hvert skipti. Lokaafurðin er ekki endilega alltaf það sem mestu máli skiptir, heldur hvernig ferlið fer fram, hvernig því er stýrt, samskipti listamannanna og hvernig ný þekking verður til. Það þarf að vera traust og ákveðið samkomulag til að slíkt samstarf geti virkað og blómstrað. Mínar aðferðir eru í stanslausri þróun en snúast um að hámarka sköpunarkraftinn og reyna að búa til jákvætt og um leið skapandi andrúmsloft. Listamaðurinn hefur mikið vægi, ber ábyrgð og kemur með innlegg inn í alla umræðu og sköpun. Ákveðið samtal er ríkjandi og allir eru ábyrgir. Þannig tel ég að listamaðurinn leggi sitt af mörkum og gefi sig að fullu í vinnuna.

Því er útgangspunktur vinnunnar alltaf sá sami en mismunandi leiðir farnar eftir því hvert viðfangsefnið er. Dansarar eru fljótir að tileinka sér aðferðir s.s eins og í spuna og/eða þegar samsetningaraðferðum er beitt og þeir nálgast viðfangsefnið oft meira á abstrakt hátt. Reynsla mín er að leikararnir í flestum tilfellum tengja við frásögnina, söguna sem er verið að segja og karakterinn sem er verið að túlka. Ég nota mikið spuna og opnanir til að opna á flæðið, leita eftir því óvænta og leyfa hugmyndum listamannanna að koma fram. Ef spuninn fer í réttar áttir og eitthvað spennandi gerist í rýminu reyni ég að virkja listamennina í þá átt og tala til þeirra og/eða tek upp vídjó og sýni þeim hvað það var sem virkaði og hvað ekki, allar hugmyndir eru teknar til skoðunar og úr verður samtal sem þróast áfram þangað til senan eða verkið verður til. Því eru ferlin í sjálfu sér ólík eftir viðfangsefni en nálganirnar eru ekki ósvipaðar.

 

Að lokum

: Þegar ég horfi til baka og gef mér tíma til að hugleiða um þetta ferli að þá finnst mér þetta tímabil þegar við gerðum Tímaþjófinn bæði lærdómsríkt og gefandi. Ég sannfærist meira um það hvað gott samstarf, þar sem traust og heiðarleiki er í fyrirrúmi, er vísir að góðu skapandi ferli. Annað sem er líka mjög mikilvægt og ekki má gleyma en það er húmorinn og hláturinn. Það er mikilvægt að vera faglegur en það er líka mikilvægt að hlæja og tileinka sér létt andrúmsloft og hafa skemmtilegt í vinnunni. Ég er sannfærð um að slíkt opnar á frekari sköpun og ratar inn í lokaútkomu verka. Ég var mjög ánægð með þetta ferli, samstarfið við aðra listræna stjórnendur og alla leikarana. Ég hlakka til næsta samstarfs. Milli okkar ríkir góður skilningur og yfir okkur svífa kvenlægir straumar, sem skila sér inn í aðferðir þar sem við beitum gagnrýnni hugsun og sjálfskoðun sem ég tel vera mikilvægt í allri skapandi samvinnu.

- Ég er alveg sammála þér, mér fannst samstarfið mjög gefandi, heiðarlegt og skemmtilegt. Það er mér mjög mikilvægt að í allri skapandi vinnu sé rými fyrir húmor, ögranir og opið samtal, að það sé gaman að vinna að verkefninu, og fannst mér allt ferlið og samstarfið við þig og aðra er komu að uppsetningunni vera á þann veg. Það sem ég dró helst lærdóm af í þessu ferli er enn og aftur mikilvægi samspils greiningar, mikillar undirbúningsvinnu, flæðis og innsæis. Mikilvægi þess að leyfa sér að dansa á mörkum vissu og óvissu, þora að taka áhættu og vera djörf í nálgun sinni. Mér fannst okkur takast að vera samkvæmar sjálfum okkur og því sem við lögðum upp með og ná í sviðsetningu okkar að skapa heildstætt samspil texta, hreyfingar, tónlistar og sviðsumgjörðar.

 

Um Tímaþjófinn

Skáldsagan Tímaþjófurinn eftir Steinunni Sigurðardóttur kom fyrst út árið 1986, öðlaðist miklar vinsældir og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1988. Tímaþjófurinn er einstakt verk um leynilegt ástarævintýri, höfnun og missi, og þá sársaukafullu þráhyggju sem ást í meinum getur orðið. Verkið er skrifað af djúpum mannskilningi og meitluðum húmor.

Á vordögum 2017 tók Þjóðleikhúsið til sýninga leikgerð Melkorku Teklu Ólafsdóttur af Tímaþjófinum. Í óvenjulegri og heillandi sviðsetningu öðlaðist skáldsaga Steinunnar nýtt líf. Samspil texta, tónlistar og sviðshreyfinga skapaði margslunginn heim ástar, höfnunar og þráhyggju.

 

Leikstjóri var Una Þorleifsdóttir.
Danshöfundur: Sveinbjörg Þórhallsdóttir
Búningar og sviðsmynd: Eva Signy Berger.
Tónlist og hljóðmynd: Kristinn Gauti Einarsson.
Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson.
Leikarar: Björn Hlynur Haraldsson, Edda Arnljótsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Oddur Júlíusson og Snæfríður Ingvarsdóttir.