Námið er tveggja ára (fjögurra missera), 120 eininga fræðilegt og hagnýtt framhaldsnám í listkennslufræðum sem lýkur með M.Art.Ed. eða MA gráðu. Nemendur vinna 10, 20 (M.Art.Ed.) eða 30 (MA) eininga lokaverkefni eða ljúka námsleiðinni án lokaverkefnis (MT).  
 
Námið miðar að því að mennta listafólk til kennslu ásamt því að efla með því færni og fræðilegan grunn til að miðla þekkingu sinni á ólíkum vettvangi. Námið er fjölbreytt og byggir á námskeiðum í kennslu-, uppeldis- og sálarfræði, heimspeki og félagsfræði, samhliða þjálfun í kennslu og miðlun listgreina og verkefna á vettvangi bæði innan skólakerfisins og utan þess.
 
Áhersla er lögð á að nemendur öðlist skilning og þekkingu á starfi kennarans, bæði fræðilega og á vettvangi. Þeir geti skipulagt nám og námsþætti út frá gildandi námskrám og valið námsgögn, náms- og matsaðferðir við hæfi. Kennsla og miðlun eru einnig skoðuð í víðara samhengi og nemendur hvattir til að setja fram eigin sýn og hugmyndir um listnám og námsframboð í samfélaginu.
 
Í listkennsludeild er saman kominn hópur fólks úr öllum listgreinum sem hefur það að takmarki að tileinka sér og þróa aðferðir við listkennslu með sem víðtækustum samfélagslegum og hugmyndafræðilegum skírskotunum.
 
 

Selected graduation projects

Ljóðasmiðja- Poetry Workshop
Dálítill sjór
„Listkennslan blönduð saman við listamanninn er fullkomin blanda. Að kenna gefur þér svo mikinn innblástur fyrir þína eigin listsköpun.
 
Það sem stendur hæst eftir námið er risastórt tengslanet af fólki. Einnig tek ég með mér fulla fjársjóðskistu af visku og verkfærum sem munu nýtast mér í minni kennslu og almennt í öllu lífinu.
 
Það sem ég er kannski ánægðust með er að ég náði í gegnum námið að tengja allt saman sem ég hef verið að fást við í lífinu; fatahönnuðinn, jógakennarann, listamanninn og listkennarann í mér. Námið hjálpaði mér að tengja.“
 

 

 

Thelma Björk Jónsdóttir, hönnuður og jógakennari.

Frá deildarforseta

Í listkennsludeild Listaháskóla Íslands er námið um margt öðruvísi skipulagt en víðast er um listkennaranám. það felst í því að í náminu eru listamenn úr öllum listgreinum: myndlist, arkitektúr, hönnun, tónlist, leiklist og dansi, sem hafa ákveðið að bæta við sig menntun í kennslu og miðlun. Þó nemendum bjóðist námskeið og samtal tengd eigin listgreinum er meirihluti námskeiða opinn öllum og gerir það deildina að kraumandi potti listanna.

Kristín Valsdóttir, deildarforseti.