Fimmtudaginn 16. febrúar kl. 20:00 mun Margot Norton flytja erindi í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi undir hatti Umræðuþráða.

Margot Norton segir frá úrvali sýninga sem hún hefur skipulagt í New Museum í New York og veitir innsýn í ferli og vinnu sýningarstjórans. Hún segir einnig frá nokkrum af þeim hugmyndum og listaverkum sem móta dagskrá myndlistarhátíðarinnar Sequences VIII sem sett verður í Reykjavík haustið 2017 en Norton verður sýningarstjóri hátíðarinnar. Að auki verður Margot gestur myndlistardeildar Listaháskóla Íslands þann 17. febrúar. Hún mun deila reynslu sinni með nemendum á BA og MA stigi og skyggnast inn í verk MA nemenda í vinnslu.

Margot Norton er sýningarstjóri við New Museum í New York. Þar hefur hún sýningarstýrt einkasýningum með listamönnum á borð við Judith Bernstein, Sarah Charlesworth, Tacita Dean, Erika Vogt og Ragnari Kjartanssyni.

Norton skipulagði yfirlitsýningu á verkum LLYN FOULKES sem hefur verið sett upp í the Hammer Museum í Los Angeles, auk þess vann hún að samsýningunum Here and ElsewhereNYC 1993: Experimental Jet Set, Trash and No Star, Ghosts the Machine og Chris Burden: Extreme measures.

Norton var aðstoðarsýningarstjóri á Whitney Biennial 2010 og í Whitney Museum of American Art (Drawings Department) í New York. Norton hlaut meistaragráðu í sýningarstjórnun frá Columbia University, New York, hún hefur haldið fyrirlestra og gefið út efni um samtímalist.

Umræðuþræðir eru samstarfsverkefni Listasafns Reykjavíkur, Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar og Listaháskóla Íslands. Lagt er uppi með að skapa vettvang hérlendis fyrir alþjóðleg tengsl og umræður í fyrirlestraröð ár hvert. Þátttakendur í verkefninu eru virtir sýningarstjórar, fræði- og listamenn sem eiga merkan feril að baki á alþjóðlegum vettvangi. Erindi fyrirlesara tengjast á þematískan hátt með vísunum í sýningar sem standa yfir hverju sinni.

Fyrirlestrar fara fram á ensku og eru öllum opnir án endurgjalds.

Facebook viðburður.