Vakin er athygli á spennandi fyrirlestri sem Hilmar Þórðarson, tónskáld, mun flytja í málstofu tónsmíðanema næstkomandi fimmtudag, 25. janúar klukkan 15. 
 
Þar mun Hilmar segja frá listrænu rannsóknarverkefni sínu sem hann hefur unnið að við NTNU-háskólann í Þrándheimi (Tækni- og vísindaháskólann í Noregi) en verkefnið snýst um að stjórnandi við tónlistarflutning geti mótað styrk og áferð rafhljóða með handahreyfingum líkt og þegar lifandi hljóðfæraleikarar eiga í hlut. Til þess hefur Hilmar unnið að þróun stjórnandahanskans ConDiS (Conducting Digital System) en með honum getur stjórnandi mótað hljóðstyrk og hljóðfall, áferð og staðsetningu rafrænna hljóða í rýminu sem opnar fyrir ótal möguleika á þróun og flutningi lifandi rafhljóða. 
 
 
Hilmar er staddur hérlendis í tilefni Myrkra músíkdaga sem standa yfir frá 25. - 27. janúar en á tónleikum í Norðurljósum, laugardagskvöldið 27. janúar klukkan 19 mun Sinfóníettan í Þrándheimi flytja verk hans Kuuki no Sukima þar sem stjórnendahanskinn ConDiS kemur við sögu.
 
 
Hilmar útskrifaðist frá tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1985 og lauk síðar Mastersprófi (MFA) í tónsmíðum frá California Institute of the Arts (Cal Art's) og Yale háskólanum. Hann starfaði um árabil sem forstöðumaður Tónverks Tónlistarskólans í Kópavogi og veitti Nýmiðlasviði tónlistardeildar Listaháskóla Íslands forstöðu á árunum 2001 - 2006.  Hilmar hefur verið búsettur í Noregi frá árinu 2012 þar sem hann hefur starfað við tónsmíðar og listrænar rannsóknir.
 
 
Fyrirlestur Hilmars fer fram í stofu 633 í Skipholti 31 og stendur yfir frá 15 - 16:30.  Fyrirlesturinn er öllum opin og allt áhugafólk um nýja tónlist hvatt til að mæta.