Sóley Stefánsdóttir tónlistarkona heldur fyrirlestur í málstofu laga- og textasmiða í tónlistardeild LHÍ, föstudaginn 6. apríl kl. 12:45 -14:30. Fyrirlesturinn verður haldinn í stofu 633 og er öllum opinn.

Sóley Stefánsdóttir útskrifaðist af tónsmíðabraut Listaháskóla Íslands árið 2010 og sendi sama ár frá sér sína fyrstu smáskífu,Theater Island, sem hlaut mikið lof gagnrýnenda. Ári síðar kom út hennar fyrsta breiðskífa, We Sink sem hlaut frábærar viðtökur. Hún hefur síðan sent frá sér tvær rómaðar breiðskífur, Ask the Deep (2015) og Endless Summer (2017) auk þriggja smáskífa (Krómantík (2014), Don't Ever Listen (2015) og Harmóník (2017)) og breiðskífunnar Team Dreams (2017) sem unnin var í samvinnu við Sindra Má Sigfússon (Sin Fang) og Örvar Þóreyjarson Smárason (múm). Að auki hefur Sóley samið tónlist fyrir kvikmyndir, dansverk og leikhús. Hún vinnur núna að sinni fjórðu breiðskífu, mögulega sinni tilraunakenndustu hingað til,  þar sem unnið er með harmonikku, mellotron, theremin og rödd. 

Á meðal verðlauna og tilnefninga sem Sóley hefur hlotið fyrir tónlist sína má nefna Kraumsverðlaunin og tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna, Norrænu tónlistarverðlaunanna (Nordic Music Prize) og Grímuverðlaunanna fyrir tónlist sína í leikritinu Breaking News. Sóley hefur að auki haldið tónleika um víða veröld á undanförnum áratug enda nýtur tónlist hennar vinsælda í ótal löndum.