Vinnustofa með Spilmönnum Ríkínís og Birgit Djupedal í tónlistardeild Listaháskóla Íslands þriðjudagsmorguninn 24. apríl frá 10:30 - 12:10. Vinnustofan fer fram í Skipholti 31, Fræðastofu 1 (stofu 663). Allir velkomnir - aðgangur ókeypis.
 
Spilmenn Ríkínís og Birgit Djupedal halda vinnustofu um íslenska og norska þjóðlagatónlist þar sem þau ræða tónlistarsköpun sína og flytja þjóðlög ásamt nokkrum lögum eftir Birgit.
 
Spilmenn Ríkínís skipa Örn Magnússon, Marta Guðrún Halldórsdóttir og Ásta Sigríður Arnardóttir. Þau hafa lengi unnið með þjóðlagatónlist, farið í fjölda tónleikaferðalaga, gáfu út geisladisk árið 2009 og opnað heim íslenska þjóðlagsins fyrir fjölda áheyrenda. Á meðal hljóðfæra sem þau leika á eru langspil og symfón.
 
Birgit Djupedal fjallar um rannsóknarverkefni sitt „Langspil og langeleik: Að semja nýja tónlist og þróa nótnaritun fyrir gömul íslensk og norsk alþýðuhljóðfæri“. Samstarf hennar og Spilmanna Ríkínís hófst sumarið 2017. Birgit er nemandi við Listaháskóla Íslands og lýkur meistaragráðu í tónsmíðum nú í vor.