Miðvikudaginn 16. maí er þér boðið á lokatónleika Ragnhildar Veigarsdóttur, en hún útskrifast með BA gráðu í skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands nú í vor.

Ragnhildur hefur lengi haft áhuga á tengingu tónlistar við hið sjónræna og verkefni hennar snýst um hvernig hægt sé að fá sem flesta til að taka þátt í sköpuninni, hvernig sú tenging hjálpar til við að gera upplifunina skemmtilegri fyrir áhorfendur.

Til að framkvæma þetta fékk Ragnhildur nokkra hópa til að koma og hlusta á lögin sem hún og hljómsveit munu flytja á tónleikadegi. Hóparnir notuðu tónlistina sem innblástur og teiknuðu, lituðu og skrifuðu allt sem þeim datt í hug. Út frá þessu hannaði Ragnhildur ljósasýningu með Axel Inga Ólafssyni, en hann sér um ljósasýninguna á tónleikadegi.

Tónleikarnir innihalda þrjú lög sem verða að einni heild og hún fær frábæran hóp af flytjendum með sér í lið.

Söngur: Ása Bjartmarz
Fiðla: Aldís Bergsveinsdóttir
Fiðla: Agnes Eyja Gunnarsdóttir
Víóla: Sigrún Mary McCormick
Selló: Sverrir Arnórsson
Gítar: Árni Freyr Jónsson

Tónleikarnir eru haldnir í Tjarnarbíói klukkan 19.00, það er frítt inn og allir hjartanlega velkomnir!

Ljósmynd af Ragnhildi: Leifur Wilberg