Föstudaginn 12. janúar kl. 13.00 mun Arnar Ásgeirsson halda opinn fyrirlestur um verk sín og vinnuaðferðir í fyrirlestrarsal myndlistardeildar að Laugarnesvegi 91.

Í fyrirlestrinum ætlar Arnar að segja frá kaotísku ferðalagi sínu, samvinnuverkefnum og misvel heppnaðri listsköpun sinni. Nýleg verk hans kalla á þátttöku áhorfenda og bjóða uppá huglæg ferðalög. Samspilið getur átt sér stað með dáleiðslu eða jafnvel með góðum smók. Náttúrufyrirbæri í hinum ýmsu myndum bregða einnig fyrir í verkum hans svo sem í teikningaröðinni Transmutants and Emotional Curves.

arnarasgeirsson_page2_web.jpg
 

Úr Læknablaðinu 2017:
Teikningarnar eiga það sameiginlegt að sækja í myndmál gróðurs og náttúru og þannig kallast þær á við kunnuglegar allegóríur um undirmeðvitund og sálarlíf. Verkin eru ýmist fígúratíf eða hálfabstrakt eins og jurtavafningarnir sem hér um ræðir. Önnur verk Arnars eru af ólíkum toga og útfærð í ýmsa miðla, meðal annars skúlptúrar og vídeó. Þar er listamaðurinn líka á andlegum og tilfinningalegum nótum, til dæmis þar sem hann styðst við dáleiðslu og tekst á við spurningar um lífshamingju. Loks ber að nefna áhuga Arnars á verkum annarra listamanna en hann hefur gjarnan vísað í höfundarverk annarra þar sem hann veltir upp spurningum um uppruna hugmynda, gildi frumsköpunar og hins einstaka listaverks. Þá vekja verk hans upp vangaveltur um eðli, hlutverk og vægi listsköpunar og listnautnar. Þær pælingar setti hann fram á sýningu undir heitinu Happy People sem hann stýrði í Nýlistasafninu sumarið 2017. (Markús Þór Andrésson)

Arnar Ásgeirsson er fæddur árið 1982 og lauk BA-námi í myndlist frá Gerrit Rietveld Akademíunni og MA-námi í Sandberg Institute í Amsterdam. Arnar er teiknari en hann segir líka sögur í formi skúlptúra, vídjóa og texta. Hann leikur sér með hugmyndir um uppruna og þróun sköpunarverka.

Fyrirlesturinn fer fram á ensku. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.