Föstudaginn 16. febrúar kl. 13.00 mun Anna Líndal halda opinn fyrirlestur um verk sín og vinnuaðferðir í fyrirlestrarsal myndlistardeildar að Laugarnesvegi 91.

Í fyrirlestrinum mun Anna Líndal sýna valin myndlistarverk frá sl. 25 árum, með sérstakri áherslu á vettvangsferðir. Sagt verður frá leiðangrum með Jöklarannsóknarfélaginu í Grímsvötn í Vatnajökli, leiðangri á Grænlandsjökul 2015, Surtsey 2014, 2017 og verkum sem urðu til í kjölfarið á þessum ferðum.

List Önnu Líndal er marglaga og samsett. Þetta á jafnt við um myndefni hennar, viðfangsefni verka og merkingu þeirra sem hina sjónrænu framsetningu þessara þátta. Í innsetningum hennar má finna jafnt nýjustu tækni í formi myndbanda á tölvuskjáum sem og aldagamla hefð íslenskra hannyrða og undanfarin ár hafa þættir vísindalegra rannsókna og skrásetningar orðið æ fyrirferðarmeiri. 

Anna Líndal útskrifaðist frá Myndlista- og Handíðaskóla Íslands árið 1985 og lauk framhaldsnámi frá The Slade School of Fine Art í London árið 1990 og MA í Listrannsóknum frá St Lucas, University College of Art & Design, Antwerpen 2012. Anna var prófessor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands frá árinu 2000–2009 og hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir fagið.

Fyrirlesturinn fer fram á ensku. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Facebook viðburður.