Tónlistardeild Listaháskóla Íslands býður til málþings um tónlistarferðamennsku.

Engum dylst að tónlistarhátíðir líkt og Iceland Airwaves, Sonar, Secret Solstice og fleiri laða margan ferðamanninn til landsins, en hverjir eru möguleikarnir þegar kemur að sígildri tónlist? Er sóknarfæri fyrir sígilda tónlist í ferðaþjónustugeiranum?
Til þess að ræða þetta mál, sem er svo mjög í deiglunni, býður tónlistardeild Listaháskóla Íslands til stutts málþings um tónlistarferðamennsku þar sem sjónum verður einkum beint að klassískri tónlist. Aðalgestur málþingsins er Barry Cheeseman en hann er einn eigenda ferðaskrifstofunnar Kirker Holidays sem sérhæfa sig m.a. í ferðum fyrir áhugafólk um sígilda tónlist. Aðrir gestir málþingsins eru þau Örvar Már Kristinsson, leiðsögumaður og óperusöngvari og Steinunn Birna Ragnarsdóttir, píanóleikari og óperustjóri Íslensku Óperunnar. Málstofustjóri er Svava Bernharðsdóttir, víóluleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands, aðjúnkt við LHÍ og leiðsögumaður .

Málþingið fer fram í Sölvhóli, tónleikasal LHÍ (stakt timburhús á horni Klappastígs og Skúlagötu), þann 8. mars frá kl. 16:30 – 18:00.

Máþingið er öllum opið og aðgangur ókeypis.