Málstofa með Guðmundi Steini Gunnarssyni, tónskáldi, á vegum tónlistardeildar LHÍ, föstudaginn 13. apríl frá 12:45 til 14:30. Málstofan fer fram í stofu 633 (Fræðastofu I) í Skipholti 31. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

Nánar:
Guðmundur Steinn hefur þróað hrynmál sem styðst ekki við neinn púls eða taktstrik. Hugmyndirnar innihalda engar beinar línur eða kassa, heldur má segja að þær séu málaðar beint á strigann. Hann notast oft við nýja miðla s.s. hreyfinótnaskrift til að birta þessar hugmyndir. Hann lærði tómsíðar í Mills College hjá Alvin Curran, Fred Frith og John Bischoff og í Listaháskóla Íslands hjá Úlfari Haraldssyni og Hilmari Þórðarsyni. Hann hefur einnig sótt tíma hjá Atla Ingólfssyni. Guðmundur sótti þar að auki sumarnámskeið í Darmstadt 2008 hjá Karlheinz Stockhausen í Kürten 2004. Þar að auki hefur hann sótt námskeið hjá Helmut Lachenmann, Tristan Murail, Pauline Oliveros og Clarence Barlow. 

Tónlist Guðmundar Steins hefur verið flutt af BBC Scottish Symphony, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Caput, Kammersveit Reykjavíkur, Nordic Affect, Ensemble Adapter, Dog Star Orchestra, Aksiom Ensemble, Defun Ensemble, l'Arsenale, Tøyen Fil og Klafferi, Duo Harpverk og Hinum íslenska flautukór. Þá hefur tónlist Guðmundar heyrst á hátíðum á borð við Transit, November Music, Ultima, MATA, Musikin Aika, Thingamajigs Festival, Timisoara International Music Festival, Reno Interdisciplinary Arts Festival, Nordlichter Biennale, Schloss Benrath Winter Akademie og á írsku ráðstefnunni ISSTC þar sem Guðmundur Steinn var aðalgestafyrirlesari.

Guðmundur Steinn er stofnmeðlimur Samtaka listrænt ágengra tónsmiða umhverfis Reykjavík (S.L.Á.T.U.R.) sem staðið hefur að tónlistarhátiðinni Sláturtíð og fjölda annarra viðburða á Íslandi og erlendis síðan 2005. Hann er einn af stofnendum Fengjastrúts og var um tíma einn af skipuleggjendum tóleikaraðarinnar Jaðarber. Hann starfrækir jafnframt sinn eigin tónlistarhóp sem nefnist Fersteinn. Þá vann Guðmundur til verðlauna árið 2011 í tónsmíðakeppni vegna 80 ára afmæli Ríkisútvarpsins. Meðal útgefinna verka á hljómplötum má nefna Horpma sem kom út hjá Carrier Records árið 2011, La Noche Oscura del Alma 2017 hjá  Tonestrukt og Krákulán 2018 hjá VauxesFlores. Þar að auki hefur fjöldi titla komið út hjá útgáfu sem hann starfrækir ásamt Páli Ivan frá Eiðum og nefnist Traktorinn. 

Sjá einnig:
 
gudmundursteinn.net
gudmundursteinn.bandcamp.com
http://shop.mic.is/OriginatorDetail/58212
traktorinn.bandcamp.com
soundcloud.com/gudmundursteinn
youtube.com/gudmundursteinn