Föstudaginn 31. mars kl. 13 mun Sigrún Inga Hrólfsdóttir halda opinn fyrirlestur um verk sín og vinnuaðferðir í fyrirlestrarsal myndlistardeildar að Laugarnesvegi 91.

Sigrún er ein af þremur stofnendum Gjörningaklúbbsins (1996). Verk þeirra eru af margvíslegum toga og unnin í ýmsa miðla en eiga það sameiginlegt að eiga rætur í gjörningalist. Í verkum Gjörningaklúbbsins má oft sjá samspil margra ólíkra táknmynda sem kunna að virðast abstrakt við fyrstu sýn, en eru í raun kunnuglegar myndir sem eiga rætur í sameiginlegum menningararfi og varpa ljósi á kerfi og ósýnilegar reglur samfélagsins. Verk Gjörningaklúbbsins hafa verið sýnd um allan heim og eru í eigu helstu safna á Íslandi og fjölmargra erlendra opinberra og einkasafna. Síðasta einkasýning Gjörningaklúbbsins, Love Conquers All var sett upp í ARosS, Aarhus Kunstmuseum árið 2016. Gjörningaklúbburinn var einnig á úrvalslista sem fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2016.

Sigrún hefur auk þess unnið að eigin myndlist í ýmsla miðla, aðallega teikningu, vídeó og innsetningar en hefur nú í seinni tíð snúið sér meira að málverki. Síðasta einkasýning Sigrúnar nefndist Hin ókomnu og var sett upp í Kunstschlager í Reykjavík. Þar voru sýnd málverk og innsetning. Í verkum sínum skoðar Sigrún hið óefnislega svæði tilfinninganna og samspil hins innri heims þess persónulega við hinn ytri heim hugmynda, hluta og tákna.

Sigrún Inga Hrólfsdóttir er fædd árið 1973 í Reykjavík. Hún stundaði myndlistarnám á listasviði Fjölbrautaskólans í Breiðholti frá 1990-93, við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1993 – 96 og mastersnám við Pratt Institute í New York frá 1996-97. Hún hefur einnig numið listfræði og heimspeki og útskrifaðist með meistaragráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 2016. Sigrún er deildarforseti myndlistardeildar.

Hamskipti er yfirskrift fyrirlestrarraðar í myndlistardeild Listaháskóla Íslands nú á vorönn. Mikil endurnýjun hefur orðið meðal fastráðinna kennara deildarinnar að undanförnu, en alls tóku 5 nýjir háskólakennarar til starfa við deildina á haustmánuðum 2016.

Þau eru Ólöf Nordal, (sem hélt opinn fyrirlestur í nóvember 2016), Carl Boutard, Bryndís Snæbjörnsdóttir, Bjarki Bragason og Hildur Bjarnadóttir. Auk þess sem nýr deildarforseti, Sigrún Hrólfsdóttir tók til starfa 1. mars 2016. Á fyrirlestrunum kynna kennararnir viðfangsefni sín og rannsóknir innan myndlistar, sem stuðlar að ríkara samtali um myndlist og mismunandi nálganir, innan deildarinnar og í fagsamfélaginu.

Fyrirlesturinn fer fram á ensku og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.