Föstudaginn 3. febrúar opnar listasýningin Breytileg brot í ungmennahúsinu Molanum í Kópavogi. Sýningin samanstendur af verkum fjögurra nemenda Listaháskóla Íslands, Agnesar Ársælsdóttur, Friðriks Margrétar- Guðmundssonar, Hildar Elísu Jónsdóttur og Hjördísar Grétu Guðmundsdóttur, og er hluti af dagskrá Safnarnætur 2017. Í verkum þeirra er meðal annars fengist við rannsókn á tíma, samband ljóss og skugga, tilvist og hljóð. 

Agnes Ársælsdóttir er á öðru ári myndlistadeildar Listaháskóla Íslands. Hún vinnur yfirleitt í tímatengdum miðlum, svo sem hljóði, videó og gjörningum. Á sýningunni fjallar hún um hugtakið ,,tími” og leitast við að bera kennsl á grunnhugmyndir þess, byrjun, miðju og endi. Einnig reynir hún að teygja tímann og gefa áhorfandanum tækifæri á að leiðast. 

Framlag Friðriks Margrétar- Guðmundssonar til sýningarinnar Breytileg brot er hljóðverkið Bragðarefur. Bragðarefur er áskorun til áheyrandans að nota minnið til að fylla í eyður á hljóðmynd. Áheyrandi fær heyrnatól til að hlusta á verkið en fær aðeins að hlusta á tvær rásir af átta. Hann má skipta um og hlusta á hvaða rásir sem hann kýs en er alltaf takmarkaður við tvær. Áskorunin felst í því að reyna að komast að því hvað býr á öllum rásum og leggja saman til að mynda heildarverk í huganum. Friðrik er á þriðja ári í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands.

Hildur Elísa er á fyrsta ári við myndlistadeild Listaháskóla Íslands og hefur undanfarið velt fyrir sér tilvist hluta; hvað er það að vera til og hvenær verður eitthvað til? Verk Hildar Elísu á sýningunni Breytileg brot eru af ýmsum toga, bæði ofin inn í rýmið og unnin úr fundnu efni, en fjalla öll um samspil ósýnileika og tilvistar.

Hjördís Gréta Guðmundsdóttir greinir frá samspili ljóss og skugga í formi málverka og teikninga á margskonar máta með áherslu á útsaum, vatnsliti og ljóskast. Gréta  er nemandi á fyrsta ári við myndlistadeild LHÍ.