Sunnudaginn 26.mars kl.14.00 verða haldnir strengjasveitartónleikar í Neskirkju. Þar leiða saman hesta sína nemendur úr tónlistardeild Listaháskóla Íslands og úr Tónlistarskólanum í Reykjavík.

Tónleikarnir verða helgaðir minningu Björns Ólafssonar fiðlukeikara, en öld var liðin frá fæðingu hans þann 26.febrúar sl.

Björn var einn af helstu máttarstólpum í íslensku tónlistarlífi fyrir og eftir miðja síðustu öld. Hann var í hópi þeirra fyrstu, sem luku burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1934, en nam síðan erlendis um árabil, m.a. í Vínarborg og í Bandaríkjunum. Hann var konsertmeistari í Hljómsveit Reykjavíkur og síðan var hann ráðinn fyrsti konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá stofnun hennar árið 1950 til ársins 1972. Hann kenndi jafnframt fiðluleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og veitti strengjadeild skólans forystu frá 1939 til 1975. Björn lést árið 1984 eftir langvarandi erfið veikindi.

Á efnisskrá tónleikanna verða fluttir tveir þættir ú einleikssónötu í g-moll eftir J.S.Bach, umrituð fyrir fiðlukór. Divertimento í D-dúr KV.136 eftir W.A.Mozart, en þetta verk var iðulega á dagskrá hjá Birni Ólafsyni þegar hann stýrði Nemendahljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík.

Að lokum verður fluttur hinn viðamikli og glæsilegi Concerto Grosso nr.1 eftir Ernest Bloch. Píanóleikari í því verki er Anela Bakraqi.

Stjórnandi tónleikanna verður Guðný Guðmundsdóttir fiðlukeikari , einn af fjöldamörgum nemendum Björns og fyrrverandi fyrsti konsertmeistari í Sinfóníuhljómsveit Íslands.