Kæru lesendur

Það er mér mikið gleðiefni að fá að fylgja úr hlaði þessu fyrstu tölublaði Þráða, tímariti tónlistardeildar um tónlist og rannsóknir. Þótt megin forsenda rannsókna sé að auka við þekkingu er ekki síður nauðsynlegt að hafa möguleikann til miðlunar. Án miðlunar er rannsókn jafn tilgangslítil og óflutt tónverk, verk sem aðeins er aðgengilegt höfundinum einum. Í rannsóknarstefnu tónlistardeildar LHÍ er kveðið á um að deildin bjóði kennurum sínum og nemendum uppá fjölbreyttan vettvang til miðlunar rannsókna þeirra. Með stofnun Þráða opnast nýr vettvangur sem hefur ekki verið áður til staðar á Íslandi og er fyrir löngu orðinn tímabær. Það virðist einnig að þörfin fyrir þennan vettvang hafi verið mikil því áhuginn leyndi sér ekki og eru alls gefnar út 12 greinar í þessu fyrsta tölublaði. Með þeirri ákvörðun að gefa tímaritið eingöngu út á vefnum opnast ennfremur ný tækifæri til miðlunar rannsókna t.d. með hljóðdæmum og myndböndum sem ekki er unnt í hinum hefðbundnu prentmiðlum.

Þræðir eru þó ekki einvörðungu vettvangur fræðimanna, hér er nefnilega litið á nýja, jafnt sem eldri tónlist, innlenda sem erlenda, frá fjölbreyttu sjónarhorni tónskálda, flytjenda og fræðimanna. Tímaritið á þannig að verða hvati til eflingar orðræðu um tónlist, sem teygir sig langt út fyrir veggi Listaháskólans, því þekking leynist víða á hinu breiða sviði tónlistarinnar. Í því ljósi var ákveðið að opna tímaritið fyrir fjölbreyttum textum um tónlist, en einskorða það ekki við akademískar greinar. Spannar því þetta fyrsta tölublað allt frá persónulegum vangaveltum um tónlist, umfjöllun um tónlistarhátíð, tónfræðigreiningar auk fræðilegra greina.

Hér opnast einnig vettvangur fyrir nemendur tónlistardeildar að kynna þær rannsóknir sem styrktar hafa verið af Nýsköpunarsjóði námsmanna, en tímaritið er ekki ritrýnt, þótt stefnt sé að því að það innihaldi bæði ritrýnt og óritrýnt efni í framtíðinni.

Það er ekki einvörðungu tilgangur Þráða að verða vettvangur miðlunar. Það er ekki síður markmið tímaritsins að efla íslenskuna sem vettvang umfjöllunar og skrifa um tónlist og er það von þeirra sem standa að útgáfu Þráða að íslenskt tungutak um tónlist muni þróast og þroskast með tímariti líkt og þessu.

Fyrir hönd tónlistardeildar vil ég þakka öllum sem lögðu til efni í þetta fyrsta tölublað Þráða en sérstaklega þó ritnefndinni fyrir sitt mikla og óeigingjarna starf.

Tryggvi M. Baldvinsson, deildarforseti tónlistardeildar LHÍ

Í ritnefnd Þráða sitja þau:

Dr. Einar Torfi Einarsson, aðjúnkt í tónsmíðum

Dr. Berglind María Tómasdóttir, aðjúnkt og fagstjóri hljóðfærakennarnáms og

Þorbjörg Daphne Hall, lektor og fagstjóri fræða.