Sigrún Gyða Sveinsdóttir
BA Myndlist 2017
sigrungyda.com

Kona hittir konu úti á götu, horfir í kring um sig og veltir fyrir sér hvort hún líti raunverulega á sjálfa sig sem skúlpu? Konuskúlpu sem fólk dáist að á ferð sinni í gegnum hversdaginn eða jafnvel skúlpu sem enginn tekur eftir þar sem grá steypan heillar meira en sjálf litla konuskúlpan sem fer hjá sér vegna ömurleika síns.

Ímyndið ykkur að þið sitjið í sal fullum af fólki. Hér titra allir af léttleika. Sýningin er búin. Keppnin er búin. Fyrir framan sætaraðirnar er svið þar sem leikendur hneigja sig endurtekið. Aftur og aftur gera þeir tilraun til að stinga kollunum ofan í sviðið, eins og strútar í dýragarði. Þig langar bara til að komast heim. Heim vegna þess að þú vildir aldrei fara, heim því þér fannst ekkert varið í það sem fyrir augu bar og þér leiddist allan tímann. Þetta var leiðinlegasta sýning sem þú hefur séð. Samt klapparðu fyrir leikendum. Líka í uppklappinu.

Það er gott að fá klapp á bakið. Vera hrósað fyrir eitthvað sem við gerum vel, eitthvað sem við erum ánægð með og gerir okkur stolt. Pumpa örlitlu dópamíni um líkamann og brosa til sólar. En allt í einu byrjar að rigna. Himinninn verður grár og við fáum ekki hrósið sem við vonuðumst eftir. Fáum kannski ekki nema tíu like á nýju profilemyndina. Síðast voru þau 89.

Fyrir um það bil einu og hálfu ári setti ég nýja profilemynd á Facebook. Á myndinni var ég í útlöndum, í rauðmáluðum neðanjarðarlestargöngum. Ég drakk rauðan safa úr plastglasi með röri og var klædd í rauðan anorakk. Mamma mín tók myndina. Hún var í heimsókn. Ég fékk 244 like á myndina. Ég hef aldrei aftur fengið svona mörg like á mynd sem ég set á samfélagsmiðla. Ég hef ekki hugmynd um hvaða algorythmi orsakaði þennan gífurlega likefjölda. Eitt veit ég þó og það er að það er líklegra að fólk smelli like á mynd sem hefur verið likeuð oft. Vegna þess að við fylgjum hópnum og treystum ekki eigin innsæi.

Ég likea til að fá like. Til að fá viðurkenningu og hvatningu þó ég viti að það gefi mér litla sem enga mynd af útlitslegum kostum mínum og dugnaði. Ætti mér ekki hvort sem er að vera sama um hvað öðrum finnst? Þarf bara að anda. Ég bölva skrambans fegurð minni og bý til skúlptúr úr sjálfri mér.
Raddarskúlpa hittir vöðvaskúlpu úti á götu og þær ganga saman hönd í hönd út í bjarta nóttina.
 

sig_1.jpg