Fornafn: 
Snæbjörg
Eftirnafn: 
Sigurgeirsdóttir

 

Ég er leiklistarkennari.  Mín listgrein er kennsla.  Kennsluferill minn fyllir nú tvo áratugi og „verk” mín eru því daglega á fjölum leikhúsanna og öldum ljósvakans.  Það er mitt cv.

 

Sérgrein mín innan leiklistarkennslunnar er rödd, tal og texti.  Röddin er augljóslega eitt helsta hljóðfæri leikhússins, hver svo sem stíllinn eða nálgunin er.  Í starfi mínu hef ég lagt mikla áherslu á að vinna með röddina í samhengi heildarinnar. Mitt helsta keppikefli gegnum árin hefur verið aukin samvinna milli faga.  Að rödd, líkamsþjálfun og leiktúlkun séu í lifandi og virku samtali. Jú, auðvitað er hægt að þjálfa raddtækni eina og sér og það gerum við hér í Leiklistardeild L.H.Í.  En til að röddin verði skapandi og frjálst afl verður að skoða hana sem hluta af stórri heild.  Leikarinn sjálfur, hugur hans og líkami, hlutverkið sem unnið er með, verkið sem unnið er að, leikstjórnin, nálgunin, erindið, tíminn, samfélagið, lífið;  allt þarf þetta að spila saman.  Gamla, lífseiga skiptingin í hina einföldu, óæðri tækni og hina flóknu, æðri sköpun er eitur í mínum beinum.  Innantóm tækni er tilgangslaus og tæknilaus list er vond.  

Upphaflega kem ég úr heimi tungumálsins; íslenskunnar.  Ég byrjaði kennsluferilinn í Leiklistarskóla Íslands sem eins konar málfarsvarðhundur á sviði talaðs máls.  Ég var svo lánsöm að fá að starfa við hlið Hilde Helgason raddkennara í 14 ár.  Hilde var minn helsti mentor og frábær fyrirmynd í lífi og starfi.  Af alþjóðlega þekktum kennurum nefni ég helst Patsy Rodenburg og Kristin Linklater og aðferðir þeirra, sem áhrifavalda í minni kennslu.  Ég hef einnig lagt mig fram um að fylgjast með kennslu leiktúlkunarkennara í gegnum tíðina.  Til að efla og auka við mig hefur mér oft fundist gjöfulla að leita andagiftar í öðrum fögum en raddfaginu sjálfu.  Líkamsþjálfun og dans hafa oft verið uppspretta hugmynda og þróunar í minni kennslu.  

Nám og kennsla eru tvær hliðar á sama peningi.  Til að dafna þarf nemandinn  - og kennarinn - að vera trúr sjálfum sér, en um leið sýna stöðuga viðleitni til að víkka út eigin ramma, reyna á eigin þolrif. 

Í fullri hreinskilni held ég að í rauninni sé ekki hægt að kenna neinum neitt.  Það er hins vegar hægt að leiðbeina og opna leiðir fyrir nemandann, aðstoða hann við að læra.  Garðyrkjumaður getur undirbúið jarðveginn, en fræið spírar af eigin rammleik.

Að sjá nemanda brjóta niður hindranir sínar, efla styrk sinn, vaxa og springa út sem manneskja og listamaður; það er mín endalausa hvatning í starfi.  

Staða: 
Sérsvið: 
Deild á starfsmannasíðu: