Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf (NAIP)

 

Starf tónlistarmannsins breytist hratt, verður sífellt fjölbreytilegra og teygist víðar þvert á landamæri. Lengi hefur skort á að í boði sé einstaklingsmiðað tónlistarnám sem sniðið er að þörfum hvers og eins. Það verður æ erfiðara að fá vinnu í hljómsveit eða óperuhúsi, að ekki sé minnst á að fá tækifæri sem einleikari eða einsöngvari, á meðan störfum frumkvöðla og sjálfstætt starfandi tónlistarmanna í hinum ýmsu lögum þjóðfélagsins fjölgar hratt.

Ný nálgun í einstaklingsmiðuðu námi

Námið, sem er samvinna fimm tónlistarháskóla í Evrópu, er tveggja ára nám til 120 eininga og ljúka nemendur að jafnaði 30 einingum á önn. Náminu lýkur með M.mus gráðu. Markmiðin eru að þróa og framkvæma skapandi verkefni við mismunandi aðstæður og efla með þeim áræði og dug til að gerast leiðtogar á sínu sviði. Nemendur fást við fjölbreytta tónsköpun og flutning, og þróa í því skyni nýjar aðferðir. Þeir fá þjálfun í listrænni stjórnun, verkefnastjórnun, frumkvöðlastarfi í tónlist og starfendatengdum rannsóknum. Unnið er að samstarfsverkefnum milli ólíkra tónlistarstíla, listgreina og hvers konar hópa samfélagsins. Með það að markmiði að nálgast nýja áhorfendahópa og auka með því almenna tónlistariðkun. Sérhæfing er möguleg í samspili (Ensembles), samstarfsverkefnum (Collaborative Practice) eða starfi með margskonar samfélagshópum (Crosssector Settings).

Nám sem byggir brýr

Námið hentar tónlistarmönnum með fjölbreytilegan bakgrunn, bæði sem flytjendur og tónsmiðir, sem hafa skýra sýn, hæfni og köllun til að feta nýjar brautir í að vinna með tónlist og tónlistariðkun í þágu samfélagsins. Þeir fá þjálfun í listrænni stjórnun, verkefnastjórnun, frumkvöðlastarfi í tónlist og starfendatengdum rannsóknum. Unnið er að samstarfsverkefnum milli ólíkra tónlistarstíla, listgreina og hvers konar hópa samfélagsins með það að markmiði að efla með þeim áræði og dug til að gerast leiðtogar á sínu sviði og að nálgast nýja áheyrendur.

Inntökuskilyrði fyrir meistaranám í Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi

BA / BMus gráða í tónlist eða sambærilegt nám og reynsla. Gott vald á tónlistarflutningi sem skal sýnt í inntökuprófi. Skýr listræn sýn og metnaður auk nægrar grunnþekkingar í þeim hæfniviðmiðum sem sett eru og metin í inntökuferlinu.

 
Nafn brautar: Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf
Nafn gráðu: M.MUS
Einingar: 120 ECTS
Lengd náms: 4 annir – 2 ár