Samningurinn gerir ráð fyrir að Listaháskólinn bjóði uppá nám á bakkalárstigi og meistarastigi á fræðasviðinu listum, vinni að uppbyggingu þekkingar á því sviði og miðli henni til samfélagsins. Miðað er við að fjöldi nemenda verði á bilinu 400-600. Í samningnum er m.a. fjallað um réttindi og skyldur við nemendur, ábyrgð skólans, framlög ríkisins og fjárhagsleg samskipti við ríkið, upplýsingar og eftirlit.

Með samningnum fylgir sérstakur viðauki þar sem lýst er helstu þáttum í starfsemi Listaháskólans og þeim áherslum sem skólinn sjálfur leggur fram, m.a. varðandi hlutverk og stefnu skólans, framboð á námi, rannsóknir, gæðastýringu, stjórnun og skipulag, auk markmiða og framtíðarsýnar til ársloka 2015.