Í dansverkinu Reið skoða danshöfundarnir hvar mörkin liggja á milli konunnar og hryssunnar og hvernig þær endurspegla hvor aðra. Níu kvendansarar taka þátt í þátt í verkinu og stíga á svið sem flóknar skepnur. Glæsilegar, ljósar yfirlitum, holdugar, loðnar og gljáandi. Dásamlega dramatískar, skapmiklar, villtar og viðkvæmar. Þær eru með tígulegan limaburð, langan háls, sterka leggi, breið bök og mjúkar línur. Þær eru óútreiknanlegar, varar um sig, þolinmóðar og gáfaðar. Tillitsamar, kærleiksríkar, kynæsandi og kraftmiklar. Þetta eru hraustar, frjóar og geðþekkar gyðjur.

Dansarar eru Elín Signý, W. Ragnarsdóttir, Gígja Jónsdóttir, Halla Þórðardóttir, Saga Sigurðardóttir, Snædís Lilja Ingadóttir, Valgerður Rúnarsdóttir, Védís Kjartansdóttir, Eydís Rose Vilmundardóttir, og Díana Rut Kristinsdóttir. Eydís og Díana eru nemendur á 3. ári á samtímadansbraut Listaháskólans og er þátttaka þeirra í verkefninu starfsþjálfun á vegum Listaháskólans.

Höfundar verksins, þær Sveinbjörg og Steinunn, starfa báðar við samtímadansbraut Listaháskólans. Sveinbjörg sem lektor og fagstjóri og Steinunn sem aðjúnkt.

Aðrir listrænir stjórnendur eru Andrea Gylfadóttir sem sér um tónlist, Jóní Jónsdóttir hannar búninga og Jóhann Bjarni Pálmason lýsingu.

Verkefnið er styrkt af Menntamálaráðuneytinu og er sýnt í samstarfi við Borgarleikhúsið og Reykjavík Dance Festival.

Reykjavík Dance Festival

Reykjavík Dance Festival fer fram í tólfta sinn dagana 27. -30. ágúst næstkomandi. Markmið hátíðarinnar er að þenja mörk danslistarinnar, virkja áhorfendur, skapa hið óvænta og síðast en ekki síst að koma fólki út á dansgólfið.

Að þessu sinni er fókus hátíðarinnar á íslensk dansverk og verða frumsýnd 12 ný íslensk dansverk á sýningunni. Höfundar eru auk Sveinbjargar og Steinunnar m.a. Ásgerður Magnúsdóttir og Alexander Roberts, Erna Ómarsdóttir, Saga Sigurðardóttir, Katrín Gunnarsdóttir og Margrét Bjarnadóttir.

Nánari upplýsingar um dagskrá

Ásgerður G. Gunnarsdóttur og Alexander Roberts eru listrænir stjórnendur Reykjavík Dance Festival (RDF) og eru ráðin til þriggja ára, en á undanförnum fimm árum haf þau sinnt listrænni stjórnun og verkefnastjórn á fjölda viðburða og hátíða á borð við sviðslistahátíðina artFart, The Festival, Choreography Reykjavík og Reykjavík Dance Festival.

Námskeið fyrir nemendur sviðslistadeildar

Í tengslum við hátíðina verða haldin tvö námskeið fyrir nemendur Sviðslistadeildar. Vinnustofan "Beuty and the Beast" sem Apetrea og Halla Ólafsdóttir leiða.  Listrænir stjórnendur hátíðarinnar, Ásgerður Gunnarsdóttir og Alexander Roberts með námskeiðið „Umfjöllun og gagnrýni“.

Nemendur brautarinnar taka virkan þátt í hátíðinni, annað hvort sem hluta að starfsþjálfun í sínu námi og taka þá þátt í dansverkum eða aðstoða við framkvæmd sýningarinnar og öðlast þannig dýrmæta reynslu og tengsl inn í dansheiminn.