Nú stendur yfir verkefni hjá tónlistardeild sem er hluti af námi NAIP meistaranema. NAIP stendur fyrir New Audiences and Innovative Practice og áhersla er lögð á nýjar aðferðir við sköpun, flutning og miðlun á tónlist með öðrum sviðslistum og byggir á ýmis konar samvinnu ólíkra hópa innan og utan Listaháskólans. Þetta verkefni gengur út á skapandi tónlistarsmiðjur þar sem þrír ólíkir hópar koma saman og úr verður ný tónlist sem er flutt á tvennum tónleikum á Iceland Airwaves Off-Venue fimmtudaginn 3. Nóvember og föstudaginn 4 nóvember kl. 18. Samstarfshóparnir eru annars vegar ungsveit sem kennir sig við Völuspá og er skipuð 15 unglingum af Reykjavíkursvæðinu sem stunda tónlistarnám og hins vegar 18 manna og kvenna sveit tónlistarháskólanema frá Konunglega tónlistarháskólanum í Aarhus í Danmörku. Gestakennari, og sá sem heldur utanum ferlið, er Guy Wood. Hann er trommuleikari og kennari við Prins Claus tónlistarháskólann í Groningen og Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag í Hollandi.