Sigurður Guðjónsson myndlistarmaður og umsjónarmaður vídeóvers myndlistardeildar Listaháskóla Íslands opnar sýningu í BERG Contemporary föstudaginn 2. september kl. 17-19

Í verkum sínum vefur Sigurður saman myndum, tónlist og hljóði sem öll hljóta sama vægi í meðförum hans án þess að stuðst sé við fyrirfram gefnar aðferðir. Stundum eru það hljóðin sem Sigurður finnur innan tiltekins rýmis sem leggja línurnar og hafa áhrif á aðra formlega og fagurfræðilega þætti. Í öðrum tilfellum er það andrúmsloft staðar sem opnar möguleika fyrir þær skynjanir sem keyra verkið áfram hverju sinni. Heimur verkanna er oft fjarlægur og dregur áhorfandann til sín í gegnum nánast líkamlega upplifun af samspili myndar og hljóðs við umhverfið. Verk hans hafa verið sýnd á fjölmörgum einka- og samsýningum meðal annars Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Hafnarborg, Menningar og listamiðstöð Hafnarfjarðar, Kling&bang Gallerí, Safn, Reykjavík, Suðsuðvestur, Reykjanesbæ og Tromsø Kunstforening í Noregi, Arario Gallery Beijing, Kína og Hamburger Bahnhof, Berlín.  

Í skrifum Jón Proppé um sýninguna í BERG Contemporary segir m.a.

Sýningar Sigurðar Guðjónssonar mynda sterka heild og verk hans hafa skýr höfundareinkenni. Hann notar vídeó og hljóð – náttúruleg hljóð og hluti, vélar, manngert umhverfi og gömul tæki – af minimalískum aga en nær þó að draga fram í þessum viðfangsefnum mörg lög af merkingu og tilfinningum. 

Sigurður Guðjónsson er fæddur árið 1975 í Reykjavík. Hann stundaði nám við Billedskolen Kaupmannahöfn 1988-1999, Listaháskóla Íslands 2000 -2003 BA og Akademie Der Bildenden Kunste í Vínarborg 2004.  

Nánari upplýsingar um verk hans má finna á heimsíðunni sigurdurgudjonsson.net