Niki Jiao er frá Ningxiang í suðurhluta Kína og lauk MA námi í hönnun frá Hönnunar- og arkitektúrdeildar LHÍ vorið 2015. Hún lauk BA gráðu í grafískri hönnun við einn virt­asta lista­há­skóla Kína Central Aca­demy of Fine Art for Visual Comm­unicati­on Design. Í dag rekur hún hönnunarstofuna Studio-fræ á Íslandi.

 

Formgerð minning

Eftir að Jiao útskrifaðist hefur hún snúið sér að öðrum verkefnum. Þar ber helst að nefna verkefnið „Formgerð minning: Tilraun til verðugra minjagripa // Shaping Memory: New Attitude Towards Souvenirs“ sem naut styrkveitingar frá RANNÍS undir leiðsögn Tinnu Gunnarsdóttur í samstarfi við Auði Inez Sellgren og Elsu Dagnýju Ásgeirsdóttir. Markmið verkefnisins var að styrkja stöðu minjagripabúða í Reykjavík með því að varpa nýju ljósi á möguleika í minjagripagerð. Tekist var á við klisjukenndar og misvísandi birtingarmyndir íslenskrar menningar í minjagripagerð og á heimasíðu Studio-fræ er hinn tvíhyrndi víkingahjálmur nefndur sem slíkt dæmi. Þess í stað leituðu hönnuðirnir í verkefninu að frumlegum birtingarmyndum íslenskrar menningar og náttúru sem nýta mætti sem minjagripi.

 

Veðrið

Samstarf þeirra Jiao, Elsu og Auðar kveiktu hugmynd um frekara samstarf þeirra þriggja. Í kjölfarið útvegaði Jiao þeim vinnustofu í Kína. Vinnustofan er staðsett á Chongming eyju í nágrenni Shanghai og rekin af hönnunarteyminu Design Harvest sem hefur það að markmiði sínu að þróa hefðbundnar framleiðsluaðferðir úr sveitum Kína til að styrkja samskipti borganna og landsbyggðarinnar með það fyrir sjónum að halda á lofti sjálfbærri þróun.

Viðfangsefni þeirra í vinnustofunni var veðrið – hvernig veður skapar fólk með ólíkum hætti með tilliti til uppruna þeirra, samfélags og heimkynna. Fyrri hluti verkefnisins fór fram á Hönnunarmars fyrr á árinu 2016 en síðari hlutinn í Kína. Vinnustofan stóð í 45 daga.

 

Studio-fræ

Eftir að vinnustofunni lauk sneri Jiao aftur til Íslands og leggur nú grunn að eigin hönnunarstofu, Studio-fræ. Markmið stofunnar er að koma á samstarfi á milli íslenskra og kínverskra hönnuða og er sjálfbærni höfð að leiðarljósi í verkefnum stofunnar. Vinkona hennar, kínverski hönnuðurinn Li Yiwei hefur slegist í hópinn og vinnur nú með Jiao að því að koma stofunni á laggirnar.

Á heimasíðu Studio-fræ má sjá yfirlit yfir verkefni stofunnar. Þar má nefna, auk þeirra sem þegar hefur verið fjallað um verkefnið WhatEverYouLike. Markmið verkefnisins var að styðja við hugmyndafræði Gay Pride í samhengi við sjálfbæra hönnun. Um er að ræða myndir af höndum karla og kvenna, saumaðar í bómull, sem tengja má eftir eigin höfði, hvort sem væri hendur konu og konu, karls og karls eða karls og konu. Þá má einnig nefna verkefnið Underground, safn keramikpotta sem byggir á hugmyndinni um endurholdgun í ólíkum trúarbrögðum.

 

Gagnlegar slóðir

Afrakstur samstarfsverkefnisins um veðrið má skoða á heimasíðunni http://totallyaboutweather.com.

Áhugasamir um vinnustofu Design Harvest í Kína geta nálgast frekari upplýsingar inn á http://mp.weixin.qq.com/s?__biz=MjM5MDc3NDMyOA==&mid=214831293&idx=1&sn=....

Nánar má lesa sér til um lokaverkefni Jiao á vefsíðu Morgunblaðsins, http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/04/18/vill_vera_kjotidnadinum_inn....

Heimasíða Studio-fræ er http://studio-frae.com og á slóðinni http://studio-frae.com/weather má finna upplýsingar um það verkefni.