Dagana 14. til 22. október tóku Thomas Pausz aðjúnkt og Garðar Eyjólfsson fagstjóri ásamt núverandi og fyrrverandi nemendum vöruhönnunarbrautar LHÍ þátt í þverfaglegri hugveitu (e. think tank) sem kallaðist FUTURE FICTIONS í samstarfi við listamennina Gediminas og Nomeda Urbonas sem stjórna tilraunaverkefninu ZOOETICS á vegum MIT háskólans í Bandaríkjunum. Verkefnið var unnið að Ásbrú þar sem Thomas og Garðar kynntu heimspeki efnisrannsókna innan vöruhönnunarbrautar með dæmum úr einstökum rannsóknum og nýlegum hönnunarverkefnum. Þar að auki framleiddu nemendur vöruhönnunarbrautar undir handleiðslu Thomasar gagnvirka en jafnframt æta innsetningu sem gerð var úr íslenskum þangtegundum í samstarfi við listamenn og kokka frá veitingastaðnum Dill og mátti bera augum í Listasafni Reykjavíkur. Þessar íslensku þangtegundir eru ekki aðeins ætar heldur er tiltölulega auðvelt að safna þeim á Íslandi, segir Thomas. Þá nefnir hann sérstaklega að efnið Agar, sem er framleitt úr rauðþörungum og Ari Jóns, nemandi við vöruhönnunarbraut, hefur notað í hönnun sinni, hafi verið notað sem undirlag undir matarinnsetningarnar.

Markmiðið með verkefninu var ennfremur að fjalla um mögulega framtíðarnotkun á Ásbrú en Thomas segir slíka umfjöllun um staðinn afar mikilvæga í ljósi þess að þannig sé tekist á við söguna, íslenskan menningararf og komið með tillögur um hvernig megi endurheimta náttúrulegt svæði sem notað hefur verið í hernaðarlegum tilgangi. Afrakstur verkefnisins var fyrst og fremst lifandi samtal um efnislega framleiðsluferla með áherslu á samstarf og samskipti ólíkra dýrategunda en sá útgangspunktur er meginviðfangsefni tilraunaverkefnisins ZOOETICS sem listamenn MIT háskólans standa að. Þá varð einnig úr að fulltrúum vöruhönnunarbrautar hefur verið boðið að heimsækja MIT háskólann á næsta ári til áframhaldandi samstarfs.

 

Hér að neðan gefur að líta myndir af samstarfsverkefninu FUTURE FICTIONS en áhugasamir geta kynnt sér verkefni MIT, ZOOETICS nánar á heimasíðunni http://www.zooetics.net/.