Fimmtudaginn 29. september fer MATUR & NÝSKÖPUN fram í Húsi sjávarklasans, Grandagarði, milli kl. 15 og 17. Núverandi og fyrrverandi nemendur við Listaháskólann munu kynna verkefni sín tengd mat og hönnun.

Íslenski sjávarklasinn efnir til viðburðarins í samstarfi við Landbúnaðarklasann og Matvælalandið Ísland. Tilgangurinn er að kynna nýsköpunarfyrirtæki og sprota sem vinna að nýsköpun og framþróun í mat hér á landi, allt frá hugmyndum yfir í fullbúnar vörur.

Hér má finna viðburðinn á Facebook

Meðvitaðri súkkulaðineysla
Sóley Þráinsdóttir mun kynna útskriftarverkefni sitt í vöruhönnun sem hún vinnur að um þessar mundir í samstarfi við súkkulaðiframleiðandann Omnom. Verkefnið er tillaga að meðvitaðri neyslu á súkkulaði þar sem neytandinn býr til sinn eigin bita af súkkulaði með sérstaklega hönnuðum áhöldum og við ákveðna athöfn.
vimeo.com/soleythrains

100% íslensk pítsa
Flatbökusamsteypuna er samstarfsverkefni milli listamanna, hönnuða og ræktenda sem hafa það að markmiði að skoða hvaða möguleikar eru fyrir hendi til þess að búa til 100% íslenska pítsu. Markmiðið er að vekja fólk til umhugsunar og hvetja það til þess að fræða sig um matarvenjur sínar. Hópurinn samanstendur af Ágústu Gunnarsdóttur, Eveline Bünter, Gísla Hrafni Magnússyni, Joel Zushman, Maríu Nielsen og Sigurrós Guðbjörgu Björnsdóttur.
www.flatbokusamsteypan.com
www.facebook.com/flatbokusamsteypan

Einnota þörungaflöskur
Ari Jónsson mun kynna einnota vistvænar flöskur sem unnar eru úr vatni og náttúruvænu efni sem rauðþörungar framleiða. Efnið heldur formi ef flaskan er full af vökva, en brotnar hratt niður þegar hún tæmist.
www.ferlar.info

Heimaræktunarkerfi
Brynja Þóra Guðnadóttir kynnir verkefnið Season sem byrjaði sem meistaraverkefni í hönnun við Listaháskólann. Verkefnið er heimaræktunarkerfi sem byggir á notkun sjálfvökvandi vatnsgels úr brúnþörungum sem er bæði notenda- og umhverfisvænt.
seasongrow.com

Gómsætar gulrófuvörur
Connective Collective kynnir þrjár vörulínur sem þau hafa verið að þróa úr gulrófum en á Íslandi falla árlega til um 200 tonn af gulrófum sem ekki þykja söluhæfar vegna stærðar- eða útlitsviðmiða. Connective Collective samanstendur af þeim Þuru Stínu Kristleifsdóttur, Védísi Pálsdóttur, Birni Steinari Blumenstein, Johönnu Seelemann og Gabríel Markan. Verkefnið sem hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði er í umsjón Búa Bjarmars Aðalsteinssonar stundakennara við Listaháskólann.
connectivecollective.is

Ásamt nemendunum verða 30-40 fyrirtæki á staðnum og kynna sig og það sem þau hafa upp á bjóða. Sérvalin dómnefnd mun velja áhugaverðasta matarsprotann.