Kviss búmm bang samanstendur af þeim Evu Björk Kaaber, Evu Rún Snorradóttur og Vilborgu Ólafsdóttur sem starfað hafa saman sem Kviss búmm bang frá árinu 2009. Eva Björk er með MA gráðu í Performance Making frá Goldsmiths University í London, á meðan Eva Rún og Vilborg eru báðar með BA gráðu í fræði og framkvæmd frá leiklistar- og dansdeild Listaháskóla Íslands. Auk þess hafa þær stöllur víðan bakgrunn í myndlist og félagsvísindum. 

Í verkum Kviss búmm bang er áhersla lögð á áhorfendur og þátttöku þeirra, til lengri eða skemmri tíma, í sviðsettum aðstæðum. Hið eðlilega, og þar af leiðandi hið óeðlilega, er meginviðfangsefni hópsins sem telur að setja megi spurningarmerki við allt. Það gera þær með því að skapa heim, samfélagslegan strúktúr, sem þátttakendur fara inn í og upplifa. 

Kviss búmm bang hefur sýnt verk sín á listahátíðum víðsvegar um heiminn t.d. Wiener Festwochen, Baltic Circle, Mladi Levi og LOKAL og unnið verk fyrir Útvarpsleikhúsið og Leikfélag Akureyrar. Hópurinn er meðlimur í Global City Local City: evrópsku samstarfsverkefni listamanna og listahátíða sem hátíðir á borð við Spielart í Munchen og LIFT í London standa að. 

Í fyrirlestrinum leitast þær stöllur við að svara spurningunum um af hverju við búum til list og fyrir hverja samhliða því að segja frá vinnuaðferðum sínum og verkum. 

Fyrirlesturinn fer fram á íslensku og er aðgangur ókeypis.

Opnir fyrirlestrar í myndlistardeild

Á ári hverju heldur fjöldi lista- og fræðimanna erindi um verk sín og hugmyndir á fyrirlestrum í myndlistardeild. Fyrirlestrarnir eru opnir almenningi og er ætlað að kynna margþætt viðfangsefni úr heimi lista og samtímamenningar og hvetja til umræðu um þau. Fyrirlestrarnir eru mikilvægur þáttur í starfsemi deildarinnar og eru ætlaðir til að efla tengsl milli nemenda og starfandi lista- og fræðimanna. 

Fyrirlestrar í myndlistardeild fara fram í fyrirlestrarsalnum að Laugarnesvegi 91. Þeir eru opnir almenningi og aðgangur ókeypis.