Thomas Pausz, hönnuður og aðjúnkt við vöruhönnun, hefur nú haldið til London á vegum Delphina Foundation þar sem hann heldur áfram rannsóknum sínum á framtíðarmöguleikum lítilla garða og gróðurhúsa. Verkefnið ber heitið The Hybrid Allotment og mun meðal annars fela í sér vinnustofur í Islington þar sem Thomas stýrir tilraunum í garðlöndum.

Thomas hyggur á að kortleggja framleiðsluaðferðir og ferla sem geta aukið virði garða og gróðurhúsa í þéttbýli með því að beina sjónum að óplægðum möguleikum í kringum þá. Sem dæmi má nefna staðbundna ræktun á mat og framleiðslu á eldsneyti með hjálp úrgangs og hreinsun á vatni og lofti, allt á smáum skala.

Einnig mun hann skoða hvort hægt sé að fullvinna vörur, til dæmis klæðnað, úr því sem ræktað er í gróðurhúsunum og görðunum. Þannig væri hægt að búa til skapalón ferla í kringum matjurtarækt.

Thomas vill stuðla að því að garðar og gróðurhús fái stærra hlutverk í þéttbýli en nú er í stað þess að láta þau víkja til að koma fyrir fleiri íbúðarhúsum. Hann vill hinsvegar að þessir þættir séu samofnir þannig að gróðurhúsin eða garðarnir verði hluti af hversdagslífi íbúanna. Einnig hefur hann áhuga á hreyfingum, til dæmis hvað varðar lífstíl og hefur verið að skoða matarhreyfingar fortíðar og samtíma og hvernig mataræði, lífstíll og tíska mætast.

Thomas hefur nú þegar dvalið í Berlín í tvær vikur við þessar rannsóknir í boði Hybrid Plattform en heldur nú til London þar sem hann mun stýra tilraunum á þessu sviði í Islington. Þar er það Delphina Foundation sem tekur á móti honum en samtökin hafa starfað síðan 2007 og tefla þau saman listamönnum, vísindamönnum, rithöfundum, hönnuðum og fleirum og gefa þeim tækifæri til tilraunamennsku og að deila með sér þekkingu. Þema vinnustofunnar að þessu sinni er The Politics of Food: Markets and Movements þar sem matarframleiðsla og –dreifing er í forgrunni.

Túnfífillinn er notaður sem dæmi í rannsókn Thomasar en hann mun skoða alla mögulega nýtingu hans, frá ætilegum vörum eins og pestói og kampavíni yfir í efnivið til frekari framleiðslu svo sem gúmmí og eldsneyti.

Þannig mun fókusinn ekki vera á matjurtarækt sem slíka heldur möguleikana sem skapast í kringum hana.

Allt endar þetta svo með sýningu og útgáfu í London 19. og 20. september. Í framhaldinu hefur Thomas áhuga á að þróa þessar hugmyndir í íslenskum gróðurhúsum.

Frekari upplýsingar má nálgast hér:
www.pausz.org
delfinafoundation.com
www.hybrid-plattform.org