HVOLFSPEGILL - Sýning í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar

Samstarfsverkefni Listasafns Íslands í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar og MA myndlistarnema Listaháskóla Íslands og MA nema Háskóla Íslands í listfræði.

Verkefnið felur í sér að meistaranemar við myndlistardeild Listaháskólans vinna verk til sýningar í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar undir sýningarstjórn meistaranema Háskóla Íslands í listfræði. Titill sýningarinnar er HVOLFSPEGILL / UPSIDEDOME og er þemað hannað til þess að koma ellefu listnemum fyrir í rýminu sem Sigurjón vann verk sín og þar sem sýning verka hans stendur nú þegar yfir. Unnið er með samhengi safnsins og núverandi sýningu Samskeytingar. Listaverk, vinnuferill og aðferðir Sigurjóns Ólafssonar við myndlistarsköpun sína ásamt safnbyggingunni, sögu þess og umhverfi munu móta aðkomu nemenda að listaverkum sem sýnd verða samhliða verkum Sigurjóns Ólafssonar. Verkefnið er unnið undir stjórn Bryndísar Snæbjörnsdóttir prófessors við Myndlistardeild LHÍ og Hlyns Helgasonar lektors í Listfræðideild HÍ.

Sýningin stendur frá 2. desember til 11. desember. Opið er á safninu: 2., 3., 9., 10. og 11. desember frá 14.00 – 17.00.

Velkomin á opnun fimmtudaginn 1. desember 16:30 – 19:00