Etienne Delpart starfar við rannsóknarstofnunina „Listir og vísindi“ við Université Paris 1 – Panthéon‒Sorbonne í Frakklandi. Hann starfar með ýmsum stofnunum og listamönnum að verkefnum á mörkum skipulags, lista og sjálfbærrar þróunar. Etienne er einn stofnenda samstarfshópsins YA+K  sem samanstendur af ungum arkitektum, skipulagsfræðingum og hönnuðum sem starfa við verkefni er sameina skipulagsmál, byggingarlist, hönnun og menningarviðburði. Hann er einnig höfundur bókar um nýjar aðferðir í „Do It Yourself“ auk þess að kenna námskeið við Parísarháskóla um óhefðbundnar og þverfaglegar framkvæmdir er snerta gerð opinbers rýmis og borga.


Í fyrirlestri sínum ætlar Etienne Delpart að fjalla um feril sinn og deila reynslu sinni af nokkrum tilraunaverkefnum sem er ætlað að brúa bil rannsóknar og framkvæmdar. Um leið ætlar hann að velta fyrir sér hvaða möguleika blönduð sköpunarvinna hefur á að næra rannsóknir og nýsköpun. Hann lítur á vinnusmiðjuna sem vinnuaðferð sem hann hefur gert tilraunir með í gegnum þátttöku sína í samstarfshópnum YA+K og öðrum samstarfsverkefnum. Að lokum mun hann ræða sérstaklega um vinnusmiðju sína sem hann vinnur  að skipuleggja á vegum rannsóknarstofnunarinnar „Listir og vísindi“ í París og í samvinnu við Lorna Lab og Kötlu jarðvang á Íslandi.


Fyrirlestur Etienne Delapart er skipulagður í samvinnu við Listaháskóla Íslands, Lornu, félags áhugamanna um rafræna list og Reykjavíkurakademíunnar.

Fyrirlesturinn fer fram á ensku og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.


Nánari upplýsingar um Etienne Delpart má finna hér: http://www.yaplusk.org/