Fréttabréf rektors
25.10.16

Listaháskóli Íslands, líkt og aðrir háskólar á Íslandi, stendur frammi fyrir margvíslegum vanda sökum þess hversu lítið fjármagn hefur verið lagt í uppbyggingu háskólastigsins eftir langvarandi niðurskurð áranna í kjölfar kreppunnar.

Líkt og háskólarektorar bentu á í herferðinni „Háskólar í hættu” nú í aðdraganda kosninganna er staða háskólastigsins grafalvarleg. Fjármálaáætlun ríksistjórnarinnar til næstu fimm ára sem fram kom í vor gaf ekki tilefni til mikilla væntinga, enda ályktuðu háskólarektorar um áformin og bentu m.a. á að heildarútgjaldaaukning ríkisins á árunum 2017 – 2021, endurspeglaðist ekki í fjárveitingum til háskóla- og rannsóknarstarfs. Og það þrátt fyrir að skýrslur „OECD [hafi] sýnt fram á með óyggjandi hætti að íslenskir háskólar eru verulega undirfjármagnaðir og fá til að mynda helmingi lægra framlag á hvern nemanda en háskólar á Norðurlöndunum.”

Þótt undirfjármögnun bitni vissulega illa á öllu háskólastiginu, er vert að gefa því gaum að Listaháskóli Íslands stendur í grundvallaratriðum verr að vígi en hinir háskólarnir. Ekki síst þar sem húsnæðisstaða skólans er grafalvarleg. Stór hluti húsnæðisins er ekki einungis fullkomlega óviðunandi og við það bætist að ekki er hægt að gera ráð fyrir að annað húsnæði sem skólinn leigir standi honum til boða nema til skamms tíma. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir um lausnir liggur engin áætlun fyrir frá ríkisins hálfu um úrræði í húsnæðismálum hvað þá að fjármunir hafi verið eyrnamerktir í þeim tilgangi.

Jafnframt vantar mikið upp á að aðgengi fatlaðra, tækja-, tölvu- og hljóðfærakostur, húsbúnaður og aðstaða til náms, kennslu og rannsókna sé í samræmi við þær kröfur sem alla jafna eru gerðar á Íslandi.

Allt frá því í sumar hefur því verið lögð mikil áhersla á það að koma sjónarmiðum Listaháskólans hvað þessi stóru mál varðar á framfæri, auk þess vitanlega að benda á það góða starf sem þó blómstrar innan veggja skólans fyrir tilstilli þess einvalaliðs sem þar starfar og nemur.

Rektor og framkvæmdastjóri hafa því á þessu tímabili átt fundi með stjórnmálamönnum, oft forsvarsmönnum, allra þeirra flokka sem einhverjar líkur eru á að nái inn á þing. Hverjum flokki var gerð góð grein fyrir þeim samfélagslega ávinningi sem er af skólastarfinu en jafnframt því hvernig skólinn hefur um árabil, mátt sætta sig við óviðunandi húsnæði, lág framlög til rannsókna og takmarkað bolmagn til uppbyggingar eðlilegra innviða af öllu tagi.

Jafnframt hafa verið haldnir fundir með stjórnendum Rannís, til að hefja samtal um með hvaða hætti væri hægt að styrkja hlutdeild skólans úr samkeppnissjóðum þannig að samfélagið fái notið þess slagkrafts sem býr í skólastarfinu með áhrifaríkari hætti, hvort heldur sem litið er til rannsókna eða nýsköpunar.

Háskólafundur Listaháskólans var jafnframt nýttur til að skapa samræðuvettvang um vægi og þýðingu listnáms fyrir samfélagið, en hann var haldinn í samstarfi við átak Samtaka iðnaðarins undir fomerkjunum xhugvit. Aldrei hafa fleiri mætt á háskólafund LHÍ og var ánægjulegt að sjá hversu margir utanaðkomandi gestir, ekki síst stjórnmálamenn, sáu sér fært að taka þátt í samtalinu með okkur.

Eftirfylgni með þessum aðgerðum hefur svo verið rekin á samfélagsmiðlum og fjölmiðlum sem margir hafa tekið upp fréttir um þessar bágu aðstæður lykilstofnunar í menningarlífi landsins – stofnunar sem ein og sér ber ábyrgða á víðfeðmu fræðasviði lista í landinu. Deildarforsetar skólans beittu sér t.d. í greinaskrifum þar sem þeir lögðu áherslu á vægi listmenntunar og Listaháskólans sem hreyfiafls inn í 21. öldina.

Framundan eru kosningar og þær breytingar sem koma í kjölfarið; væntanlega ný stefnumótun stjórnvalda og nýjar áherslur í stórum málaflokkum. Eftir samtöl haustsins er ljóst að Listaháskólinn væntir mikils af þeim sem taka við stjórnartaumunum, enda munu stjórnendur skólans halda áfram að knýja á um þau stóru mál sem ekki geta lengur beðið; og eru húsnæðismálin þar efst á blaði auk eðlilegrar hlutdeildar í auknum fjárveitingum til háskólastigsins sem heildar. á