Listaháskóli Íslands og Háskóli Íslands standa saman að þverfaglegu námskeiði er nefnist Dark Matters. Námskeiðið hefst 11.janúar og stendur yfir í tvær vikur.

Listamaðurinn, arkitektinn, heimspekingurinn og ljóðskáldið Eric Ellingsen leiðir kúrsinn en hann hefur áranlanga reynslu af því að byggja upp og leiða framsækið og þverfaglegt nám á sviðum lista og vísinda.  

Námskeiðið er framsækið og tilraunakennt. Lagt er af stað í þekkingarleit án þess að vita nákvæmlega hvernig þekking það er sem við munum öðlast. Nemendur fá kærkomið tækifæri til þess að komast út úr þeim stífa ramma sem akademískt nám er alla jafna í  dag og kynnast, á næstu tveim vikum, einhverju öðru. Námskeiðið er hluti af langtímauppbyggingu hjá báðum stofnunum sem stefna að því að bjóða upp á alþjóðlegt nám sem laðar að erlenda nemendur á forsendum nýrrar hugmyndafræði.

Hægt verður að fylgjast með námskeiðinu á síðunni www.darkmattericeland.tumblr.com

Eric Ellingsen er með MA gráðu í arkitektúr, landslagsarkitektúr og klassískri heimspeki frá St. Johns háskólanum í Bandaríkjunum. Hann gefur reglulega út greinar og bækur um listir og skapandi ferli, flytur fyrirlestra auk þess að taka þátt í sýningarhaldi sem sjálfstæður listamaður. Nálgun hans á fyrirlestraformið er tilraunakennd sem og aðferðafræðin sem hann er að þróa í kennsluaðferðum. Kjarninn í öllu starfi Ellingsen er lærdómsferlið og miðast að því að afla þekkingar um hvernig við lærum.

Á árunum 2009 – 14 var Ellingsen annar tveggja stjórnenda Institute for Spatial Experiments/Raumexperimente, þar sem hann kenndi sömuleiðis. Þar var um að ræða 5 ára tilraun í nýjum kennsluháttum í myndlist sem listamaðurinn Ólafur Elíasson átti frumkvæðið að í samstarfi við UdK listaháskólann í Berlín. Eric Ellingsen er sem stendur gestaprófessor við School of the Art Institute of Chicago (SAIC).

 
Vefsíða Eric Ellingsen
 
 
Um námið Raumexperimente sem Eric stofnaði til í Berlín:
 
 
 
 

Háskólanám í dag byggir á stigveldishefð, þar sem námsfyrirkomulag er fremur niðurnjörvað og afmarkað. Gæðakerfi háskólanáms byggja á fyrirsjáanleika, að niðurstaðan sé þekkt og mælanleg. Rannsóknir miða iðulega að fyrirfram gefnu takmarki, þar sem vinnuferlið markast af skýrt afmörkuðu ferli, er miðar að tiltekinni niðurstöðu. Í skapandi ferli er hinsvegar lagt af stað án þess að niðurstaðan sé þekkt, án þess að vita hvaða þekking mun verða til í ferlinu. Þessi aðferð getur leitt til stórstígra framfara vegna þessa óvissuþáttar.

Akademían hefur flokkað, sett í skúffur og framleitt sérfræðiþekkingu í miklu mæli, en iðulega á mjög þröngum sviðum. Listirnar vinna hinsvegar á breiðum sviðum, vettvangurinn er ótakmarkaður, óræður og illskilgreinanlegur. Listirnar leita fanga allstaðar; í verkfræði, grasafræði, handverki, mannfræði, svo dæmi séu tekin; listamenn vita aldrei hvert hið skapandi ferli mun leiða þá. Vegna þessa frelsis í listsköpun verða stundum árekstar í flokkunar- og gæðakerfi akademíunnar þar sem hefðin verður ofan í ferlinu og óvissuþátturinn minnkar.

Til þess að háskólar geti verið í forystu, í stað þess að vera sporgöngumenn, og til þess að þeir séu raunverulegt hreyfiafl þarf að takast á við nýja hugmyndafræði og nýjar leiðir, bæði í rannsóknum, kennslu og kennsluháttum. Aðferðafræði við kennslu. Kennslu og námi.

Dark Matters snýst um það að uppgvötva nýjar aðferðir við kennslu, með því að leiða saman ólíka þætti hjá nemendum, ólíka þætti á sviði vísinda og lista, skoða sameiginlega fleti og reyna að komast að nýjum ófyrirsjáanlegum niðurstöðum. Það er ekki fyrirfram mótað frá A – Ö hvað gerist í námskeiðinu og nemendur standa frammi fyrir þessari óvissu sem er liður í að afla sér nýrrar þekkingar, óþekktrar þekkingar. Eigi að síður byggir það á áralangri reynslu sem búið er að sannreyna  innan veggja virtra háskólastofnana bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.  Námskeiðið snýst ekki um að endurvinna þekkingu sem er til staðar heldur að búa til nýja þekkingu byggða á því sem við vitum í dag.  

Námskeiðið tengir saman vísindi og listir og er samstarfsverkefni Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Um er að ræða námskeið þar sem unnið er þvert á vísindi og listgreinar með það að markmiði að skoða hvernig við lærum í gegnum skapandi ferli, tilraunir, samræður og fyrirlestra.