Kl. 10.15–11.15 Stofa 53 (3. mars)
Hulda Stefánsdóttir: Minni og tími - hugleiðing um hreyfingu á kyrrstæðum fleti (IS)
„Núið er aldrei alveg nýtt, það leggst ofan á það sem fyrir er, bælir fortíðina, byggir á henni en hafnar henni um leið. Sérhver upplifun felur því alltaf í sér ákveðið endurlit.“ (Hulda Stefánsdóttir, úr skrifum fyrir sýninguna Færsla, BERG Contemporary, 2016) 
 
Í erindinu hyggst ég draga fram þann þátt myndsköpunar minnar sem lýtur að hugmyndum um tímavídd á kyrrstæðum fleti málverksins. Sýningin Færsla (2016) fjallaði um ómöguleika þess að fanga tiltekið augnablik án þess að það bæri með sér bergmál eða ummerki þess liðna. Hvernig þetta hér og nú er einnig, og á sömu stundu, minning þess sem var. Og þar af leiðandi geti aldrei verið neinn núllpunktur eða tabula rasa.
 
Vegg innsetningin Endurlit, á sýningunni Sjónarmið, á mótum myndlistar og heimspeki, í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur árið 2011, var unnin út frá hugmyndinni um þá bjögun og brenglun sem allt endurlit til fortíðar beri með sér. Í Endurliti var horft til fyrri sýningar undir merkjum Dandruff Space & Shroud árið 2005, og verkaheild sem henni tilheyrði birtist sem óljósar skuggamyndir, prentkópíur af frummyndum sem þrykkt var beint á veggi sýningarrýmisins.
 
Ég velti fyrir mér hvernig raunveruleg endurtekning getur aldrei átt sér stað. Hvernig endurlitið er alltaf viðbót, viðauki, sem skekkir óhjákvæmilega frummyndina og minnið. Þessar vangaveltur sækja innblástur í hugmyndir fræðimanna, rithöfunda og listamanna þvers og kruss um söguna. Vísanir eru fjölmargar og mun ég einnig leitast við að gera grein fyrir nokkrum þeirra í þessu erindi.
 
Efniviður myndsköpunar er alltaf sóttur á tiltekinn stað (minninga) þaðan sem hann er tekinn og leiddur áfram. Það er þó aldrei einn upphafspunktur, ekki fremur en það er endanleg niðurstaða.  
 
shroudskann3b.jpg