Fyrir hver er námskeiðið: Námskeiðið hentar fyrir þau sem vilja kynna sér tónlistarlegar rætur Michael Jackson. Námskeiðið er valnámskeið á bakkalár-stigi tónlistardeildar.
 
Í þessum áfanga verður leitast við að varpa ljósi á fjölbreytilegan feril tónlistarmannsins Michael Jackson og þau áhrif sem hann hefur haft á tónlistarbransann og dægurmenningu. Tónlistarlegar rætur Jackson verða skoðaðar, allt frá árdögum R&B, sálartónlistar, söngleikja og rokk og róls til annarra stíltegunda sem áttu þátt í að móta hann sem tónlistarmann. Sérstökum tíma verður varið í að skoða bandarísku útgáfuna Motown sem einsetti sér að koma tónlist svartra til hvítra hlustenda í Bandaríkjum sjöunda áratugarins. Menningarlegur bakgrunnur Michael Jackson og samhengi við bandarískt samfélag verður til umfjöllunar og þáttur Jackson á meginstraumsvæðingu svartrar tónlistar í Bandaríkjunum og um allan heim. Tónlist Michael Jackson frá öllum tímabilum í lífi hans verður krufin og einnig koma samstarfsfólk og aðrir áhrifavaldar við sögu. Orðræða um Michael Jackson eins og hún birtist í fjölmiðlum verður skoðuð, og verður leitast við að varpa ljósi á bæði Michael Jackson sem konung poppsins en einnig skrítna Michael, eða “Wacko Jacko” eins og fjölmiðlar tóku að kalla hann á níunda áratugnum. Í áfanganum verður farið í gegnum fjölda greina og heimildamynda sem og mikið af hlustunarefni til að varpa ljósi á ofantalda þætti.
 
Námsmat: Próf, ritgerð, þátttaka í tímum
 
Kennari: Berglind María Tómasdóttir
 
Staður og stund: Skipholt 31
 
Tímabil: Haust, 2018.
 
Einingar: 3 ECTS.
 
Kjósi nemendur að taka námskeið án eininga gefur kennari verkefnum nemenda ekki endurgjöf. Verðmunur ræðst þ.a.l. af auknu vinnuálagi kennara.
 
Námskeið sem tekin eru án eininga geta þó skráðst, án eininga, á námsferil nemenda.
 
Verð: 36.750 kr. (án eininga) /  45.900 kr (með einingum)).
 
Forkröfur: BA gráða eða sambærilegt nám.
 
Nánari upplýsingar:  Elísabet Indra Ragnarsdóttir, verkefnastjóri tónlistardeildar. indra@lhi.is.