Meistaranám í söng- og hljóðfærakennslu

Námsleiðir
Söng- og hljóðfærakennaranám er braut innan tónlistardeildar LHÍ í nánu samstarfi við listkennsludeild sama skóla. Í boði er tveggja ára námsleið, 120 eininga meistaranám, sem lýkur með M.Mus.Ed./MA-gráðu. Nemendur sem lokið hafa meistaraprófi á hljóðfæri eða í söng geta lokið eins árs, 60 eininga, diplómanámi til kennsluréttinda við listkennsludeild.

Auk almennra réttinda sem meistaragráða veitir til frekara náms og starfa, geta nemendur sótt um starfsréttindi (leyfisbréf) sem listgreinakennarar á grunn- og framhaldsskólastigi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Forkröfur og inntaka
Námið er ætlað þeim sem lokið hafa bakkalárgráðu eða sambærilegu námi í tónlist. Umsækjendur eru boðaðir í viðtal auk þess að þreyta áheyrnarprufu á hljóðfæri eða í söng.

 

Alþjóðlegt meistaranám í tónsmíðum

Í meistaranámi í tónsmíðum er megináhersla lögð á að efla og þroska nemandann sem listamann. Hverjum nemanda er gert kleift að finna, kanna og þróa eigin listsköpun hvað varðar tækni jafnt sem fagurfræði, óháð tegund tónlistar, stefnu eða stíl.

Námið er einstaklingsmiðað. Auk tónsmíðanna velur nemandinn sér viðfangsefni sem styðja við sérsvið og áhuga hans sem tónskálds. Hann getur valið úr fjölbreyttri sérfræðiþekkingu innan skólans sem utan.

Ýmis námskeið eru í boði sem styðja við áherslusvið nemanda, jafnt í einkatímum sem hóptímum:

1) Hljóðfærafræði/raftækni og hljóðfræði.

2) Fræði.

3) Hljóðfæraleikur/söngur/stjórnun.

4) Tónlist í þverfaglegu samhengi.

Nemendur munu fá verk sín flutt af atvinnuhljóðfæraleikurum sem sérhæfa sig í flutningi nýrrar tónlistar.

Hægt verður að sækja um skiptinám á meistarastigi til um þrjátíu samstarfsskóla í Evrópu í eina eða tvær annir.

Inntökuskilyrði fyrir meistaranám í tónsmíðum

BA / B.Mus próf í tónsmíðum eða sambærilegt nám sem metið verður af inntökunefnd. Ítarleg námstillaga skal fylgja þar sem fram koma markmið og rannsóknarsvið náms.

Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf (NAIP)

Starf tónlistarmannsins breytist hratt, verður sífellt fjölbreytilegra og teygist víðar þvert á landamæri. Lengi hefur skort á að í boði sé einstaklingsmiðað tónlistarnám sem sniðið er að þörfum hvers og eins. Það verður æ erfiðara að fá vinnu í hljómsveit eða óperuhúsi, að ekki sé minnst á að fá tækifæri sem einleikari eða einsöngvari, á meðan störfum frumkvöðla og sjálfstætt starfandi tónlistarmanna í hinum ýmsu lögum þjóðfélagsins fjölgar hratt.

Ný nálgun í einstaklingsmiðuðu námi
Námið, sem er samvinna fimm tónlistarháskóla í Evrópu, er tveggja ára nám til 120 eininga og ljúka nemendur að jafnaði 30 einingum á önn. Náminu lýkur með M.mus gráðu. Markmiðin eru að þróa og framkvæma skapandi verkefni við mismunandi aðstæður og efla með þeim áræði og dug til að gerast leiðtogar á sínu sviði. Nemendur fást við fjölbreytta tónsköpun og flutning, og þróa í því skyni nýjar aðferðir. Þeir fá þjálfun í listrænni stjórnun, verkefnastjórnun, frumkvöðlastarfi í tónlist og starfendatengdum rannsóknum. Unnið er að samstarfsverkefnum milli ólíkra tónlistarstíla, listgreina og hvers konar hópa samfélagsins. Með það að markmiði að nálgast nýja áhorfendahópa og auka með því almenna tónlistariðkun. Sérhæfing er möguleg í samspili (Ensembles), samstarfsverkefnum (Collaborative Practice) eða starfi með margskonar samfélagshópum (Crosssector Settings).

Nám sem byggir brýr
Námið hentar tónlistarmönnum með fjölbreytilegan bakgrunn, bæði sem flytjendur og tónsmiðir, sem hafa skýra sýn, hæfni og köllun til að feta nýjar brautir í að vinna með tónlist og tónlistariðkun í þágu samfélagsins. Þeir fá þjálfun í listrænni stjórnun, verkefnastjórnun, frumkvöðlastarfi í tónlist og starfendatengdum rannsóknum. Unnið er að samstarfsverkefnum milli ólíkra tónlistarstíla, listgreina og hvers konar hópa samfélagsins með það að markmiði að efla með þeim áræði og dug til að gerast leiðtogar á sínu sviði og að nálgast nýja áheyrendur.

Inntökuskilyrði fyrir meistaranám í Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi
BA / BMus gráða í tónlist eða sambærilegt nám og reynsla. Gott vald á tónlistarflutningi sem skal sýnt í inntökuprófi. Skýr listræn sýn og metnaður auk nægrar grunnþekkingar í þeim hæfniviðmiðum sem sett eru og metin í inntökuferlinu.

„Ég flutti frá Noregi til Íslands til að hefja mastersnám í tónsmíðum í LHÍ fyrir tveimur árum síðan. Ég er mjög ánægð með valið mitt. Það er svo gaman að læra í skóla sem hefur eingöngu listanámsleiðir. Það skapar möguleika á samvinnu milli námsleiðanna sem gefur þér  innblástur.
Kennararnir er alltaf til í að hjálpa og koma með endurgjöf, og þeir fylgja þér alla leið frá hugmyndinni til lokaútgáfu verkefnisins. Ég er bráðum búin með námið í LHÍ og á þessum tveimur árum hafa bæði ég og listin mín þroskast.“

 

Birgit Djupedal

Frá fagstjóra

Það koma nemendur úr ýmsum áttum í MA nám í tónsmíðum við LHÍ, margir þeirra erlendis frá. Bakgrunnur þeirra er ýmist raftónlist, rituð hljóðfæratónlist, hljóðfæraleikur, kvikmyndatónlist, útsetningar, tónlistarrannsóknir eða lagasmíðar. Námið er þannig byggt upp að það getur tekið á móti svo fjölbreyttum hóp. Þótt viðfangsefnin séu margvísleg er nefnilega margt sem sameinar þá sem skapa og rannsaka tónlist á meistarastigi.

Hér er mikil áhersla á gagnrýna og skapandi hugsun og hvatt til samtals á milli nemenda jafnt innan sem utan deildarinnar. Stuðlað er að því að meistaranemar skólans myndi samfélag hverjum og einum til stuðnings og hvatningar. Þannig felst talsverður styrkur í heildinni.

En skólinn veitir jafnframt hverjum og einum þau tæki sem hann þarfnast til að ná sem mestum árangri á sínu sérsviði. Nemandinn hefur aðgang að fjölbreyttri sérfræðilegri og listrænni þekkingu innan skólans en getur auk þess leitað til leiðbeinenda og ráðgjafa utan hans.

Námið einblínir ekki aðeins á fræðilegu hliðina, því nemandinn hefur jafnframt ýmsa möguleika á að þroska tónlistariðkun sína ef hann óskar þess, auk þess sem verkleg hlið tónsmíða kemur mikið við sögu í samtali og samstarfi við sérhæfða flytjendur nýrrar tónlistar.

Atli Ingólfsson